Cameron og harðstjórarnir

Ræða David Cameron í Kuwait hlýtur að marka ákveðin þátttaskil í breskri utanríkispólitík.

Cameron viðurkenndi Bretar beri mikla ábyrgð á óróanum í Mið-austurlöndum; oftar en ekki hafa breskir hagsmunir ráðið því hverja við studdum í valdastóla. Sú afskiptasemi þótti nauðsynleg til að koma á ró í álfunni, en hefur ljóslega ekki virkað.

For decades, some have argued that stability required highly controlling regimes, and that reform and openness would put that stability at risk. So, the argument went, countries like Britain faced a choice between our interests and our values. And to be honest, we should acknowledge that sometimes we have made such calculations in the past. But I say that is a false choice.
(Cameron – Kuweit, 21.02 2011)

Cameron sagði pólitíska og efnahagslega þróun mikilvæga en hún yrði að fara fram í sátt við menningu, sögu og hefðir viðkomandi ríkja. Lýðræðið verður að byggja á grasrótinni; vesturlönd geta ekki (lengur) þvingað inn þeim stjórnarháttum sem þau telja henta.
Sú skoðun að múslimar geti ekki komið sér upp virku lýðræði, er fordómafull og jaðrar við rasisma, að mati Cameron.

But that’s not an excuse, as some would argue, to claim that Arabs or Muslims can’t do democracy – the so-called Arab exception. For me that’s a prejudice that borders on racism. It’s offensive and wrong, and it’s simply not true.
(Cameron 21.02 2011)

Ræðan er góð um margt þó maður fái örlítið á tilfinninguna að Cameron sé fyrst og síðast að koma sér í mjúkinn hjá verðandi leiðtogum nýfrjálsra landa.

Það er þó ekki fullkomlega heiðarleg greining.

Með ræðunni sendir Cameron skilaboð til Saudi-Arabíu, auk þess sem hann færir bresk stjórnvöld frá öfgaöflum á hægri væng bandarískra stjórnmála – rétt eins og hann áður gerði í Cairo.

Ef þetta eru fyrstu skrefin í að gera upp við misheppnaða og – oft á tíðum siðlausa – aðkomu Breta að málefnum Mið-austurlanda, hlýt ég að fagna því.

Fjármálaverbúðin

Ólafur Ragnar tók þá ákvörðun sem erfiðast verður að gagnrýna í framtíðinni – að afhenda þjóðinni valdið. Þannig færir hann vonlausa stöðu yfir á almenning og kemur út sem göfugmenni fyrir vikið. Slíka sjálfsvarnarsnilld lærir maður best af biturri reynslu og af henni er nóg í kofforti útrásarforsetans.

Eftir stendur að þjóðin tekur ákvörðun um hvort ríkisábyrgð verði veitt í sæmilegri sátt, eða með dómi. Sannarlega kvöl í þeirri völ.

Ekki fetti ég fingur út í þá sem telja næstu þjóðaratkvæðagreiðslu snúast um hvort greiða eigi skuldina eða ekki. Sumir vakna ekki fyrr en þeir detta úr rúminu.

En óneitanlega er skondið að sjá (fyrrum?) gallharða talsmenn dómstólaleiðar leggja allt sitt traust á að Bretum og Hollendingum verði “bannað” að fara þá leið.

Hvers vegna lögðu Bandaríkjamenn að Bretum að gefast upp fyrir Íslendingum í þorskastríðunum? Vegna þess að Bandaríkjamenn mátu það svo, að MEIRI HAGSMUNIR væru í húfi en fiskveiðar Breta á Íslandsmiðum.
[…]
Hin endanlega ákvörðun Breta og Hollendinga verður ekki tekin út frá lögfræðilegum sjónarmiðum. Hún mun byggjast á stórpólitískum og miklum fjárhagslegum hagsmunum hins alþjóðlega fjármálakerfis.
(Evrópuvaktin 21.02 2011)

Ekkert minnst á “gríðarsterkan málstað” Íslands! Nei, vandinn skal leystur samkvæmt hefð sem haldist hefur meira og minna frá stofnun lýðveldisins.

Horft til útlanda með tárvot augu.

Lágt er risið á alþjóðlegri fjármálaverbúð Halldórs Ásgrímssonar.

Staðið í lappirnar

Ég sé að gömul forsíða Morgunblaðsins er  notuð til að hvetja íslensk stjórnvöld til að “standa í lappirnar” í Icesave deilunni.

Forsíðan er frá þeim tíma er Bandaríkjamenn voru komnir með upp í kok af sífri Íslendinga og eilífri heimtufrekju.  Píslarvætti var þá þegar orðið meginstef í utanríkisstefnu þjóðarinnar, sem vanist hafði að fá allt upp í hendurnar – og þakkaði ævinlega fyrir sig með að heimta meira.

American officials had grown tired of the constant threat that unless they acceded to Icelandic demands, whether on fishing limits or economic assistance, the Iceland Defense Force might have to leave the island. In May 1976, State Department officials warned that the day might come when “the price tag gets beyond our means.”
(Guðni Th. Jóhannesson, U.S.-Icelandic defense relations during and after the Cold War)

Bandaríkjamenn voru þá þegar búnir að “sigra” tvö þorskastríð fyrir Íslendinga – en þeir síðarnefndu stálu jafnharðan heiðrinum og skjalfestu sem eigin sigra.
Síðar átti sjálfur forsetinn eftir að ferðast um heiminn, með þá söguskoðun í farteskinu að Íslendingar hefðu sigrað breska flotann – ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar sinnum. 

Væntanlega – og vonandi – var veitt duglega af áfengi í þeim veislum.

Icesave og andstæðingar

Afstaða Bjarna Benediktssonar í Icesave deilunni vekur hvorki aðdáun mína né reiði. Yfirgnæfandi líkur eru á að Íslendingar kæmu illa úr málaferlum, þó útúrsnúningar og oftúlkanir hafi sannfært suma um hið gagnstæða. Margir telja meira að segja heiminn horfa á Íslendinga með sérstöku dálæti því þjóðkjörnir leiðtogar gátu aðstoðað bankanna við að seilast ofan í vasa erlendra innistæðueigenda – og neita svo að skila þýfinu. Þar rugla menn saman eðlilegri (en harkalegri) meðferð á fjárfestum – og ólöglegum svikum gagnvart innistæðueigendum.
En nú er komið að endastöð bullsins – kúgun í krafti smæðar hefur skilað öllu því sem skilað verður.
Þessu áttar Bjarni sig á, þó hann taki vægar til orða.

Nei, það þarf ekki að hrósa Bjarna.

En sjálfsagt er að gagnrýna þegar ráðist er á manninn með vafasömum hætti, líkt og AMX gera þegar þeir atyrða Bjarna með tilvísun í Guernsey.

Bretar sögðu íbúum á Guernsey að gleyma kröfum um endurgreiðslu innlána. Vextir skiptu engu máli. Bretar sögðu kröfurnar löglausar!
(AMX 04.02 2010)

Jafnvel þrönglesnasta fólk veit að Bretar tryggðu aldrei innistæður LG – og tilkynningu þess efnis gátu allir viðskiptavinir lesið á vef fyrirtækisins. Kynnt, klappað og klárt – löngu fyrir hrun.

Deposits made with LG are not covered by the Financial Services Compensation Scheme established under the UK Financial Services and Markets Act 2000.
(Úr vefkynningu á starfsemi LG)

Skýrara verður það varla.

Það að AMX setji sérstakt upphrópunarmerki á eftir “löglausar”, segir mér þeir séu hvorki þrönglesnir né víðlesnir, heldur ólesnir. Ekki einu sinni íbúar Guernsey halda því fram að þeir eigi lagalega kröfu á Breta – ábyrgð á innistæðum bar móðurfélagið, Landsbanki Íslands.
Krefjist AMX þess að farið verði lengra með Icesave málið, mættu þeir gjarnan benda á eitthvað sem hald er í fyrir dómi. Ekki sér-íslenskar rangtúlkanir sem hlegið yrði að í réttarsal.

En þeir eru svo sem ekki einir.

Viðlíka rangtúlkanir má finna í áliti Indefence, sem lagt var fyrir alþingi Íslendinga nýverið. Skjalið er ekki alslæmt, en heildarmyndin er veik. Ekki síst vegna þess menn kunna sér ekki hóf í vafasömum fullyrðingum. Fyrirséð var oftúlkunin á orðum Barnier.

Hvergi kemur fram í umþrættri innstæðutilskipun Evrópusambandsins 94/19/EB að gert sé ráð fyrir því að ríkisábyrgð gildi um lágmarkstryggingar. Þetta hefur m.a. Michel Barnier fulltrúi í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ítrekað staðfest.
(Indefence – umsögn 10.01 2011)

Hið rétta er að Barnier hefur tekið sérstaklega fram að tryggingasjóðum beri að útvega fé – og fjármögnun frá ríki geti að sjálfsögðu komið til, ef aðrar leiðir eru ekki færar. Reglugerðin er einfaldlega hlutlaus hvað það varðar, svo fremi menn fylgi reglum ESB um ríkisstuðning.

If this is still insufficient, schemes need to have contingency plans where to get the money from other sources.
[…]
There may be state financing at this level, but the Directive is neutral on this and only requires that if it is chosen, EU state aid rules are complied with.
(Barnier 28.07 2010)

Eftirfarandi textabrot frá Indefence er síðan engum til gagns. Alla lagatexta má taka og klippa til svo þeir henti, en dómstólar horfa á textann í heild sinni.

Skýrt er kveðið á um að EES tilskipuninn (sic) um innstæðutryggingar megi ekki leiða til þess að aðildarríki beri kostnað af tryggingakerfinu (e. may not result in the Member States’ … being made liable) þar sem slík kerfi hafa verið innleid (sic).
(Indefence – umsögn 10.01 2011)

Í því áliti sem öllu skiptir, en fæstir minnast á, er sami texti birtur í heild sinni – með undirstrikun á hárréttum stað. Sést hér ágætlega munurinn á klaufalegum vinnubrögðum Indefence – og því verklagi sem dómstólar munu beita.

“this Directive may not result in the Member States’ being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognised”
(Álit EFTA 26.05 2010 – undirstrikun þeirra)

Hér skipta orðin “may not” og “if they have ensured” öllu máli. Með þeim er tilgreind vörn að uppfylltum skilyrðum. Þetta er þægilegur texti, því afleiðingarnar verða ljósar með því einu að setja neitunina (not) hvar hún á við.

Í tilfelli Íslands munu dómstólar horfa svona á klausuna (neitunin færð):

“this Directive may result in the Member States’ being made liable in respect of depositors if they have not ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognised”

Vilji menn fá þetta staðfest fyrir dómi, er það hægur vandi. Þjóðin ræður því (svo fremi andstæðingar samnings séu til í að leggja á sig vinnu við söfnun undirskrifta).

Þó Ólafur Ragnar sperri sig mjög og þykist þurfa “leggja mat” á gögnin, er hann valdlaus með öllu í málinu – rétt eins og alþingi. Hlutverk Ólafs er að telja undirskriftir gegn samningnum og vísa til þjóðaratkvæðis ef þær reyndast viðlíka margar og síðast. Fordæmið er komið.
Hvað Ólafi finnst um samninginn er í besta falli hliðarfróðleikur.

Undarlegt er þó að andstæðingarnir hafa afskaplega hátt, en athafnir eru fáar. Tveim umræðum lokið á alþingi og enn bólar lítið á formlegum undirskriftasöfnunum.
Þetta segir mér að þeir skilja og viðurkenna gildi samningsins, en ætla að hanga á andstöðunni í trausti þess hún skili engum árangri. Andstöðuna má svo rifja upp í pólitískum hráskinnaleik síðar meir – og kannski græða eitthvað á henni.

Við munum sjá hversu sannfærðir andstæðingarnir eru á næstu dögum. Munu þeir blása til undirskriftasafnanna og mótmæla, líkt og síðast – eða láta duga að kvarta á veraldarvefnum og fundum?

Stjórnlagaþing – einfalda lausnin

Ég er í vanda varðandi stjórnlagaþingið og skipti um skoðun óþægilega oft – yfirleitt í takt við síðasta ræðumann. Það kann sjaldan góðri lukku að stýra. En eftirfarandi legg ég til (þar til ég skipti næst um skoðun).

Ég er sammála því að dómurinn er fráleitur að flestu leyti. Þar er um að kenna oflestri dómara á vondri löggjöf, í bland við sofandahátt þeirra sem höfðu yfirumsjón með – eða báru ábyrgð á – gjörningnum.

Að sama skapi er ég sammála þeim sem segja kosningar einu leiðina úr núverandi stöðu. Fyrst og síðast samþykki ég ekki að vont dómskerfi sé lagað með því að hundsa það sem þaðan kemur. Það er stórhættulegt fordæmi.
Dómskerfinu má breyta með því að vanda betur skipanir – og það krefst þess að almenningur sé vakandi og óhræddur við að mótmæla kröftuglega þegar vinir og ættingjar valdsins eru settir í stólanna, þvert á alla skynsemi.
Allt annað en þjóðaratkvæðagreiðsla er hættulegt hálfkák.

En að mínu mati hefur Bjarni Benediktsson vísað veginn að lausninni, með kröftugri yfirlýsingu þess efnis að alþingi skuli þegar í stað og án millileikja, hefjast handa við breytingar á stjórnarskrá.

Þar með eru orðnir til tveir einfaldir kostir; leið A og leið B.

Svona mætti þá þjóðaratkvæðagreiðsla að fara fram.

Stjórnvöld skipa þá í nefnd sem “náðu kjöri” í kosningum. Það verður þeirra kandídat í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarandstaða tilnefnir alþingi – það verður þeirra kandídat.

Ef menn vilja – og ég held það væri sanngjarnt – mætti einnig setja inn þriðja möguleikann. Að setja allar hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá í salt þar til alþingi eða 30% kosningabærra manna krefjast þess stjórnarskráin verði endurskoðuð (prósentutala ekki ígrunduð).

Allt sem kjósendur þurfa þá að gera, er að mæta í þar til gerða tjaldklefa, merkja X við þann möguleika sem þeim hugnast best, brjóta seðilinn vandlega saman og setja ofan í harðlæsta, innsiglaða kjörkassa.

Valkostirnir væru: a) Stjórnlagaþing, b) alþingi – eða c) málið sett í salt.

Einfalt, þægilegt, lýðræðislegt.

Stjórnlagaþing klúðrast

Klúður kosninga til stjórnlagaþings er enn einn kaktusinn í hnappagat íslenskrar stjórnsýslu – og voru þó fullmargir fyrir.

Kosningaklúður eru reyndar giska algeng og  þeim fylgja málaferli; óttinn við dómstóla veitir einmitt ágætt og nauðsynlegt aðhald.  En varla gerist það oft að heil þjóðaratkvæðagreiðsla sé dæmd ólögleg, líkt og hæstiréttur hefur nú úrskurðað.  Það lítur ekki vel út.

Það væri sannarlega fallegt að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur axla ábyrð ríkisstjórnar með afsögn – og koma á hollri hefð í leiðinni – en ég sé það ekki gerast.
Ef litið er til dóma sem fallið hafa gegn ríkisstjórnum, síðasta áratug eða svo, sýnist mér reyndar sumt hafa gefið töluvert meira tilefni til afsagna – án þess það réttlæti nokkuð í þessu máli.

Afleiðingin af ábyrgðarflóttanum er værukærð og fúsk – vinnubrögðin verða áreitimiðuð fremur en fyrirbyggjandi.  Svona gengur þetta hring eftir hring, ár eftir ár.  Börnum bjargað úr brunnum, en brunnarnir aldrei byrgðir.

Hvað um það.

Eftir sem áður er stjórnlagaþing tilgreint í stjórnarsáttmála og þar hefur dómur hæstaréttar engin áhrif.

Fara þarf yfir úrskurðinn, staf fyrir staf, og boða svo til nýrra kosninga.

Þetta þarf hvorki að vera flókið né sérlega dramatískt.

Myndina tók ég í gærdag – af járnbrautarbrú utan við bæinn, rétt áður en komið er inn í þorpið Esholt, hvar hin sívinsæla sápa Emmerdale var kvikmynduð á árum áður.

Brú við Esholt

Rangfærslur um leiðtogafund

Jóhanna og Cameron
Sitt sýnist hverjum um leiðtogafund Bretlands, Norðurlanda og Eystrasaltsríkja og sumir reyndar alveg áhugalausir. En ætli fréttamiðill að segja frá fundinum, mega fréttirnar gjarnan vera réttar.

[Cameron] sagði sameinuð Norðurlönd geta orðið kjörlendi fyrir hagvöxt. Cameron vildi meina að ríkin gætu hagnast um 54 milljarða punda á ári ynnu þau saman.
Sérfræðingar BBC, benti (sic) á að slíkt samband yrði illmögulegt í ljósi þess að tvö Norðulönd notast við evruna á meðan tvö önnur ríki væru ekki einu sinni í Evrópusambandinu. Hagsmunir ríkjanna væru í raun of ólíkir.
(visir 20.01 2011)

Hvað fjárhæðina varðar var Cameron að vísa í núverandi ástand – ekki það sem hugsanlega gerist í framtíðinni.

Mr Cameron said it would boost trade with the countries, currently worth almost £54bn a year.
(BBC 20.01 2011)

Staðhæfingar um að “síkt samband yrði illmögulegt“, finn ég hvergi; hvorki á BBC né á öðrum miðlum. Hins vegar er bent á að pólitískt líti út sem stofna eigi blokk ríkja sem teljast efins um Evrópusambandið.

But there’s a hard political edge as well. Only two of today’s participants use the euro: two others aren’t even members of the European Union: some see this as the ‘Cold Europe’ Club of sceptical nations
(BBC 20.01 2011)

Annað í frétt visir.is er rétt – Cameron hvatti vissulega til hagsmunabandalags og fundinum lýkur sannarlega í dag.

Fylgjast má með ráðstefnunni á Twitter (#uknordicbaltic) og hér.

Svo má benda á stórskemmtilega grein blaðamannsins Sergei Balmasov.

It turns out that someone is persistently trying to attach previously neutral Finland and Sweden to the Alliance by hook or by crook, even if it involves the creation of the “Arctic branch of NATO”.
[…]
The importance of Finland in the upcoming merger is emphasized by the fact that the April meeting of foreign ministers of the “Arctic NATO” will take place in Helsinki. What are the true intentions of the overseas puppeteers?
(Pravda 20.01 2011)

Brjálast yfir bónusgreiðslum

Á leið úr vinnu hlustaði ég á podvarp af BBC og rakst þar á eftirfarandi mola í þættinum Wake Up to Money (hljóðskrá neðst í færslunni). Umfjöllunarefnið er bónusgreiðslur banka, tilefnið yfirheyrsla breskrar þingnefndar (TSC) á Bob Diamond, yfirmanni Barclays, og viðmælandinn er Alpesh Patel.

Yfirleitt er talað um að bónusgreiðslur séu svívirðilegar í ljósi þess skattgreiðendur hafi bjargað bönkunum, en Patel segir að hluthafar hljóti einnig að vera reiðir stjórnendum í ljósi slakrar arðsemi síðasta áratug – og leggur til að elítunni innan breskra banka verði greitt fyrir að fara úr landi og þeir ráðnir sem láta stjórnast af áhuga fyrir störfunum.
Bresku ofurmennin eru þekkt fyrir að hóta því að fara úr landi, líkt og ég hef áður bloggað um.

Árangurinn yrði varla verri við slíka breytingu, segir Patel – og tekur þar undir með Ögmundi Jónassyni, sem sagði einhvern tíma af svipuðu tilefni – þá fara þeir bara.

Ég held það væri þess virði að prófa. Fjarlægja öll ofurmenni úr einum af bönkunum og ráða grandvart fólk sem vildi starfið fyrst og síðast sökum áhuga. Ég held, í fullri alvöru, að árangurinn gæti orðið betri – jafnt fyrir skattgreiðendur sem hluthafa.

Annars hafa örlög hluthafa varla verið til umræðu eftir 2008, en á sumum hlýtur að krauma. Kannski það sé ekki markaður fyrir kvartanir þeirra, meðan allar þessar byrgðar leggjast á almenning?

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


(Alpesh B. Patel – Wake Up to Money, 12.01 2011)

Velferðarríkið Bretland?

Ég sé Stefán Ólafsson er ánægður með árangur íslenskra stjórnvalda, og kannski tilefni sé til. En frasana kannast ég við frá árunum eftir að ég flúði frá góðærðu Íslandi, yfir í meint eymdarlíf í Bretlandi – og uppgötvaði þá að tölfræðiæfingar segja ekki endilega allan sannleikann þegar mælt er milli landa.

Tölfræðilega var líklega vitlaust af mér að flýja frá Íslandi – en í raunheimum var þetta allt öðruvísi.

Nú ætla ég hvorki að verja bresk stjórnvöld, né berja á þeim íslensku. Því síður halda fram að betra sé að búa hér en á Íslandi. Það fer algerlega eftir einstaklingnum, bakgrunni hans og þrám. Eins manns paradís er annars helvíti.

Ég ætla hins vegar að setja fyrirvara við þann svart-hvíta undirtón Stefáns að íslensk stjórnvöld búi betur að þegnum sínum en þau bresku. Yfirleitt læt ég ótaldar yfirlýsingar sem birtast um Bretland í íslenskri umræðu, enda gerði þá lítið annað en að leiðrétta sleggjudóma byggða á óskhyggju, vanþekkingu eða misskilningi. Telji fólk árangursríkt að vinna sig upp með að tala aðra niður, geri ég ekkert með það.

En Stefán er í sérflokki í mínum huga – og sjálfsagt að eyða örlitlum tíma í að andmæla því sem ég tel ofsagt.

Enginn VSK á matvöru
Þegar ég flutti til Bretlands, árið 2005, vakti fyrst athygli mína hve litlu ég eyddi í matvöru, sem hlutfall af launum. Eflaust eru þar margar ástæður – ekki síst sú staðreynd að enginn virðisaukaskattur er á slíkum nauðþurftum í Bretlandi. Þar hygg ég Bretland sé nær því að teljast velferðarríki en Ísland.

Enginn VSK á barnafötum
Annað var svo barnafötin. Enn og aftur, enginn virðisaukaskattur og föt á börnin þóttu mér hreint fáránlega ódýr. Það er svolítið sniðugt að frjálshyggjudrottningin Margaret Thatcher barðist einmitt hetjulega gegn Evrópusambandinu til að viðhalda þeim munaði fyrir barnafjölskyldur. Kannski mætti segja Thatcher hafi verið nær straumum velferðar en íslensk stjórnvöld, hvað þetta varðar?

Hér má einnig geta þess að engin virðisaukaskattur er á dagblöðum, bókum, tímaritum og ýmsum varningi sem fólki er nauðsynlegur (t.d. hjálpartæki fyrir fatlaða).

Ókeypis leik- og grunnskólar
Talandi um börn. Hér byrja þau í skóla fjögurra ára. Sem sagt, ókeypis skóli frá 4 ára aldri – í mínu tilfelli byrjuðu þau reyndar í ókeypis leikskóla þriggja ára. Elsta dóttir mín naut þessa bara í eitt ár (var fimm ára þegar við fluttum), en ef við hefðum flutt fyrr, hefði ég sparað mér leikskólagjöld í samtals 9 ár (3×3) – sem slagar líklega hátt í tvær milljónir samtals. Skólabúningar minnka svo enn kostnað, sem þó væri ekki mikill vegna lágs verðs á barnafötum.
Mig munar um minna – og tel þetta ágætt dæmi um velferð.

Hærri barnabætur
Enn um börnin. Samkvæmt reiknivél ríkisskattstjóra, myndi ég fá um 19.000 krónur á mánuði í barnabætur fyrir þrjú börn (getur það staðist?). Hér fæ ég ríflega 80.000 krónur, sem skiptist í barnabætur og vikulega endurgreiddan “persónuafslátt” barnanna. Nú skal reyndar viðurkennt að ég veit ekki hvernig persónuafslætti barna er háttað á Íslandi – og hvort barnafjölskyldur fá slíkar endurgreiðslur viku- eða mánaðarlega.
Ef við tökum bara barnabæturnar, fæ ég ríflega 30.000 á mánuði hér – fengi 19.000 á Íslandi.

Vinnustundir
Ég vinn 20 stundum skemur á mánuði, fyrir hærri laun. Það gerir um einn mánuð á ári sem ég fæ í frí, miðað við fjörtíu stundirnar sem ég vann á Íslandi. Það kalla ég fjölskylduvænt.

Ókeypis læknisþjónusta (læknar, augnlæknar, tannlæknar)
Komugjöld í heilbrigðiskerfinu eru engin, hvorki fyrir börn né fullorðna Skoðanir og gleraugu eru ókeypis fyrir börn. Tannlækningar (og skoðanir) eru ókeypis fyrir börn – hámarksgjald er fyrir fullorðna. Lyf eru ókeypis fyrir börn – hámark er fyrir fullorðna.

Margt fleira gæti ég týnt til, en þetta eru þeir þættir sem mér þykir mestu skipta hvað mína velferð varðar. Auðvitað má finna galla hér eins og annars staðar – og suma nokkuð stóra – en á heildina litið er ég töluvert sáttari við lífið í Bretlandi en á Íslandi.
Ég tilheyri líklega efri lögum lágstéttar eða neðri lögum millistéttar – og fyrir mig eru lífsgæðin töluvert meiri hér.

Fyrir aðra kann veruleikinn að vera allt annar, sem eðlilegt er – og vissulega mun kreppa að á næstu árum. Þar skiptir þó miklu, frá hverju er verið að hverfa og mikilvægt að átta sig á að prósentur segja ekki allt. Þannig gæti ríkisstjórn Breta lækkað barnabætur um 50% á morgun, en hin íslenska lækkað þær um 25%. Enn væru börnin þó að fá hærri bætur hér en á Íslandi.

Líkt og ég sagði í upphafi reyni ég ekki að sannfæra aðra um að eitt land sé “betra” en annað. Það væri fráleit tilraun, því slíkt fer eftir óskum og þrám hvers og eins.

Ég tel hins vegar fráleitt að Ísland sé sjálfkrafa meira velferðarríki en Bretland, hvað svo sem öllum tölfræðiæfingum líður. Enn fremur tel ég illa fara á því að menn séu að auglýsa sig sem fyrirmynd annarra – meðan höft eru á gjaldmiðli og þúsundir heimila liggja í valnum sökum axlabanda sem blessuð krónan þurfti – og mun ávallt þurfa.
Það merkilega við vangaveltur Stefáns er, að hann gleymir algerlega að geta þess að margt af þeirri svívirðu sem Cameron þykist þurfa gera bresku þjóðinni í dag, gerðist sjálfkrafa á Íslandi með hruni gjaldmiðils, sem rýrði stórlega lífskjör alls almennings og eru hinir lægst launuðu þar sannarlega ekki undanskildir.

Enn merkilegra er kannski hve fáir átta sig á þeirri staðreynd.

Meira um það síðar.

VSK, jarðskjálfti og Postlethwaite

Fyrir rúmlega klukkustund tók gildi hækkun á VSK í Bretlandi og er nú í sögulegu hámarki, eða 20% (var áður 17.5%). Ekki vantar spádómana um að allt muni fara til fjandans vegna þessa.
Samtök kráareigenda óskuðu eftir 30 daga undaþágu frá aukningunni til að vega upp á móti viðskiptaþurrð í köldum desembermánuði. Talsmenn samtakanna hafa þá fullyrt að 8.800 störf muni tapast vegna hækkunarinnar því viðskiptavinir muni hella í sig ódýru áfengi úr stórmörkuðunum fremur en að mæta á barina.

Það held ég sé óþarfa vanmat á þeim sem stunda bresku krárnar.

Matur og barnaföt verða áfram án virðisaukaskatts, rétt eins og dagblöð og bækur.

Annars uppgötvaði ég fyrr í kvöld að virðisaukaskattur er á bókum og dagblöðum sem maður kaupir í Kindle. Einhvern vegin finnst mér að þetta ætti að vera þveröfugt, þ.e. VSK á pappírsútgáfunum en ekki þeim stafrænu.

Ekki nenni ég þó að rökstyðja þá skoðun.

—-

BBC segir mér að jarðskjálfti hafi riðið yfir fyrir skömmu. Ég varð ekki var við neitt, en Magga segist hafa fundið vel fyrir honum. Börnin voru að koma sér í háttinn, með tilheyrandi drunum, svo þau fundu ekki fyrir neinu.

Bærinn minn, Guiseley, liggur milli Ripon og Leeds – skjálftinn var upp á 3.7.

—-

Vont var að heyra af andláti Pete Postlethwaite – tvímælalaust einn af mínum uppáhaldsleikurum.

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=WgLh3ejVT2M[/youtube]