baldurmcqueen.com

Month: November, 2006

Skoti á enska pundið

by Baldur McQueen

Adam Smith - MyndSamskipti Skota og Englendinga eru oft og tíðum stirð; lituð af áralangri sögu kúgunar, yfirgangs og undanlátssemi. 
Látum liggja milli hluta hver kúgaði, gekk yfir eða gaf eftir.
Það heyrir hins vegar til tíðinda, að skoskur heiðursmaður muni prýða enska £20 seðilinn þegar Seðlabanki Englands uppfærir gjaldmiðilinn næsta vor.  Adam Smith er fyrsti Skotinn sem nýtur þessa heiðurs og leysir þar með af hólmi tónskáldið Edward Elgar, sem prýtt hefur seðilinn síðustu 7 ár.  Áður hafa m.a. Shakespeare (1970-1993) og Michael Faraday (1991-2001) glott framan í breskar eyðsluklær.
Adam Smith nýtur enn hylli, þó langt sé liðið frá andláti hans.  Því er helst að þakka ritverkinu Auðlegð þjóðanna sem er ein helsta Biblía frjálshyggjumanna víða um heim.  Líkt og með Biblíuna, eru menn gjarnir á að velja, hafna og skilgreina eins og best þykir henta hverju sinni.

Sérhæfingin
Á Íslandi hefur frelsisþráin heltekið margan manninn, en minna fer fyrir heiðarlegri umræðu um hvernig kenningar Smith og lærisveina hans, falla að svo smáum markaði.  Þannig er ljóst að verkaskipting vinnuaflsins, önnur af meginhugmyndum hans úr fyrrnefndu verki, getur aldrei orðið meiri en stærð markaðarins leyfir. 
Svona útskýrir einn af helstu frjálshyggjumönnum Íslendinga mikilvægi verkaskiptingar:

Tökum einfalt dæmi. Tveir menn eru á eyju og þurfa að nærast á fiski og kókoshnetum. Öðrum, Róbinson Krúsó, er lagið að veiða fisk. Hann getur veitt 8 fiska á dag. Hann kann hins vegar illa að tína kókoshnetur. Hann getur tínt 4 hnetur á dag. Hinn maðurinn, Föstudagur, kann vel að tína kókoshnetur og getur tínt 8 á dag. En honum er ekki eins lagið og Krúsó að veiða fisk. Hann getur aðeins veitt 4 fiska á dag. Ef þeir félagar vinna hvor í sínu lagi, þá veiðir Krúsó 4 fiska og tínir 2 hnetur á dag, en Föstudagur tínir 4 hnetur og veiðir 2 fiska á dag. Þetta eru samtals 6 fiskar og 6 kókoshnetur. Ef þeir einbeita sér að því, sem þeir gera betur en náunginn, þá verður heildarafraksturinn á hinn bóginn 8 fiskar og 8 kókoshnetur.
(Hannes Hólmsteinn Gissurarson – Vísindavefurinn)

Sé haldið áfram með ágætt dæmi, er ljóst að Föstudagur og Krúsó þurfa sjálfir að slægja fiskinn, opna kókoshneturnar, safna eldiviði, kveikja eld og matreiða góðgætið.  Sérhæfing myndi hinsvegar aukast ef fleiri byggju á eyjunni – í hlutfalli við fjölda íbúa.  Til yrðu sérhæfð störf flakara, beinhreinsara, netagerðarmanns, matreiðslumanns o.s.frv.  Það myndi svo væntanlega skila sér í aukinni framleiðni, meiri heildarafrakstri.
Þar sem stærri markaðir bjóða upp á aukna sérhæfingu og þ.a.l. aukinn afrakstur, hlýtur jafnframt að vera hollt fámennum þjóðum að fjölga þegnum sínum, til að mynda með erlendu vinnuafli.

Thirdly, the policy of Europe, by obstructing the free circulation of labour and stock, both from employment to employment, and from place to place, occasions, in some cases, a very inconvenient inequality in the whole of the advantages and disadvantages of their different employments.
(Adam Smith – Auðlegt þjóðanna, 10. kafli)

Röð og regla
Annað grunnatriði í kenningum Smith, er að á frjálsum markaði verði til röð og regla, að mestu án afskipta ríkisvalds og stofnanna.
Ekki þarf mikla söguskoðun til að sjá að ofurtrú á slíkt er hættulegt fyrirbæri, ekki síst á örmarkaði líkt og þeim íslenska.  Þar dugir að horfa til olíufursta sem mergsugu þjóðina með heldur ógeðfelldum hætti.
Adam Smith virðist átta sig á þessari hneigð og vara við:

We rarely hear, it has been said, of the combinations of masters, though frequently of those of workmen. But whoever imagines, upon this account, that masters rarely combine, is as ignorant of the world as of the subject.
(Adam Smith – Auðlegð þjóðanna, 8. kafli)

Staðreyndin er, að íslensk fyrirtæki hafa nýtt sér smæð markaðarins til að gráta út meiri sveigjanleika hvað varðar eftirlit – því annars geti þau ekki stækkað nægilega mikið til að verða samkeppnishæf á erlendum markaði.  Með minna eftirliti og vöxt umfram það sem heilbrigt getur talist, verða jafnframt til möguleikar á að okra á vörum og þjónustu.  Þeir möguleikar eru nýttir, held ég megi fullyrða.  Svo er haldið erlendis með fulla vasa fjár.

Fákeppni
Má ekki skjalfesta að á Íslandi ríki alger fámennismarkaður, með öllum þeim göllum sem slíku fylgja?  Minnir á matvörumarkaðinn hér, með Tesco og Asda í fararbroddi. 
Einhvern veginn finnst mér sömu nöfnin skjóta upp kollinum hvað eftir annað þegar skoðaðar eru stjórnir stærstu fyrirtækja landsins. Eignarhaldið er með þeim hætti að fáir, ef einhverjir, hafa nokkurn tíma komist til botns í því.
Mitt í allri vitleysunni er svo óheyrilegum tíma og fjármagni eytt í að eltast við persónur sem móðguðu fyrrum forsætisráðherra.  Dómsmálaráðherra virðist heltekinn
Hvað með fyrirtækin sem ónefndir eiga – og sanngjarnar leikreglur sem öllum ber að fylgja, svo vitnað sé í misheppnað formannseintak?  Skiptir ekki meira máli, a.m.k. til langs tíma litið, að menn geti litið yfir sviðið og trúað í hjartans einlægni að siðferði sé að finna í íslensku viðskiptalífi?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, einn af áhrifamestu frjálshyggjumönnum Íslendinga slær því fram í nýlegri grein að "fégjarn maður verði ekki ríkur, nema hann bjóði fram betri vöru eða þjónustu en aðrir."
Á þetta við um Ísland?  Er markaðurinn sannarlega samkeppnismarkaður þar sem brýn þörf er á betri vöru, betri þjónustu og besta verðinu?  Ég efast um það.  Einstaka verðstríð, hvar mjólkin er seld á eina krónu, eru undantekningar sem sanna regluna.  Á Íslandi svitna stórmenni meira við að telja peninga en að upphugsa aðferðir við að afla þeirra.

Er ég kannski of dómharður?  Er myndun einokunar- og auðhringa e.t.v. eina leiðin til að láta hlutina ganga upp á örsmáum markaði?
Hvort heldur sem er, hlýtur þó að vera markmið í sjálfu sér að koma í veg fyrir að auðvaldið breytist í stjórnvald.  Einhvern veginn finnst mér línan verða þynnri og þynnri með hverjum deginum.

Að síðustu.  Ágætis innlegg frá Adam Smith varðandi skattlagningu hinna ríku:


“When the toll upon carriages of luxury, upon coaches, postchaises, etc. is made somewhat higher in proportion to their weight, than upon carriages of necessary use, such as carts and wagons, etc. the indolence and vanity of the rich is made to contribute in a very easy manner to the relief of the poor . . ."
(Adam Smith – Auðlegð þjóðanna, 1. kafli )

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Er Ísland lítið eða stórt?

by Baldur McQueen

Geta Íslendingar ekki ákveðið hvort þeir séu litlir eða stórir?  Jafnvel með formlegri ákvörðun frá Alþingi.  Nýjasta útspil dómsmálaráðherra er með slíkum ólíkindum, að fáu er við að jafna; nema e.t.v. þegar þjóðin grét út sigur í þorskastríðinu, í krafti smæðar.

Ríkisstjórn Íslands eða einstakir ráðherrar innan hennar báru
enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði verið gerð, hvað sem afstöðu
íslenskra stjórnvalda leið. Það ber vott um yfirþyrmandi
minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að
afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort
ráðist yrði inn í Írak.
(Björn Bjarnason, 26.11 2006)

Björn beitir gjarnan þeirri tækni, að búa til rifrildi um eitthvað sem ekki er rifist um.  Öðruvísi getur hann ekki unnið.
Auðvitað hefði innrásin orðið þó Íslendingar afþökkuðu boð um formlega þátttöku.  Að mér vitandi, hefur engin mælt því mót.  En heldur þykir mér metnaður dómsmálaráðherra fyrir hönd landsins vera hverfandi, þegar hann afsakar þátttökuna með vísan í að landið sé lítið og hafi ekkert vægi á alþjóðavettvangi.
Dálítið í mótsögn við þetta:

Sjálfstæðisstefnan reynist ekki einungis best þegar glímt er við innri
mál þjóðarinnar. Hið sama gildir, þegar rætt er um stöðu Íslands í
alþjóðlegu samstarfi. Innan Sjálfstæðisflokksins ríkir sá metnaður
fyrir hönd þjóðarinnar
, sem reynist henni helst til heilla í samskiptum
við aðra (undirstrikun mín)
(Björn Bjarnason, 30.01 1999)

Ég trúi ekki í eitt augnablik, að sannir sjálfstæðismenn muni samþykkja flótta Björns frá ábyrgð, því þar innan um er að sjálfsögðu hugsandi fólk sem áttar sig á stöðunni.  Flóttann má svo skoða í ljósi hefða, því stutt er síðan sami Björn flúði frá lögbrotum með þeirri afsökun að lögin væru gömul og úr sér gengin.

En kostirnir eru fáir.  Viðurkenna mistökin, líkt og formaður framsóknarflokks hefur gert – eða samþykkja skýringu Björns og taka vansæmdinni sem fylgir.

Ekkert af þessu er sjálfgefið. Ef svo væri, stæðu fleiri þjóðir heims í
þessum sömu sporum. Það liggur síður en svo í hlutarins eðli, að
íslenska þjóðin skipi sér á þennan hátt í fremstu röð á heimsmælikvarða.
(Björn Bjarnason, 15.08 2004 )

Útblástur á borð við þann hér að ofan, heyrir þá vonandi sögunni til ef niðurstaða Björns verður samþykkt.  Þverpólitískt samþykki á vanmætti þjóðarinnar, gæti virkað sem n.k. Kyoto bókun á þjóðrembu.
Það liggur í hlutarins eðli, að ríki sem enga ábyrgð ber á gjörðum sínum, getur ekki verið í fremstu röð í einu né neinu.  Slík þjóð getur aldrei orðið annað en "þykjustuaðili" að alþjóðasamstarfi.

Ákvörðun þarf að taka.  Er Ísland ábyrgt gjörða sinna?

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Íslensk félög og ársreikningar

by Baldur McQueen

Það er auðvitað bara fyrirsláttur enda
hlýtur Evrópusambandið að vera ábyrgt fyrir reikningum sínum eins og hvert annað
ríki eða fyrirtæki

Þessi tilvitnun er af Vefþjóðviljanum; miðli sem ekki fer leynt með einlægt hatur á Evrópusambandinu og öllu sem því viðkemur.  Fjallað er um reikninga ESB og vandamál sem Endurskoðunarréttur sambandsins hefur bent á.  Réttilega.

Hitt er annað mál, að reikningum er þó skilað í ESB.

Í ár höfðu aðeins 8,7 prósent íslenskra félaga skilað inn reikningi
vegna rekstrarársins 2005 á réttum tíma samanborið við 99,8 prósent
félaga í Danmörku, 94 prósent í Svíþjóð og tæpt 91 prósent í Noregi.
(visir.is – 24.10 2006

Þessi frétt fer að verða árviss viðburður.
Ég held að forsvarsmenn Andríkis geti slappað af.  Ísland fær seint að varpa skugga á dyr ESB meðan svona óreiða er regla fremur en undantekning.
————-
Egill Helgason gerist beittari með hverjum deginum.  Bróðir minn horfði á íslenskan umræðuþátt um daginn á netinu; í fyrsta skipti í langan tíma.  Af lýsingum að dæma, mun Egill hafa verið einn af þátttakendum.  Honum þótti mikið til koma að til væri fjölmiðlamaður á klakanum sem benti á ruglið, hvaðan sem það kemur.  Vinstri, hægri, út og suður. 
Það þarf fleiri slíka.

Eftirfarandi er úr pistli dagsins.  Segir þetta ekki eitthvað um pólitíkina?

Annars er sagt að fingraför Ingu Jónu Þórðardóttur séu út um allt í
þessari uppstillingu. Þegar ljóst var að sonur hennar Borgar fengi ekki
fjórða sætið setti hún allt í gang til að koma í veg fyrir að Bergþór
hreppti það. Það er nokkuð sérkennileg flétta að á endanum skyldi það
vera Herdís, systir Ingu Jónu, sem fékk sætið.
(Silfur Egils, 24.10 2006 )

Fyrir þá sem ekki vita, er Inga Jóna kona Geirs Haarde forsætisráðherra Íslands.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Hvítu lygarnar

by Baldur McQueen

Þær eru ófáar lygarnar sem laumast í fjölmiðla landsins.  Þær hvítu er oft verstar; ekki síst þegar meginstefið er óverðskulduð upphafning.  Svokallaðar ráðherralygar.  Stórum hluta staðreynda er haldið til hlés, í þeirri fullvissu að
fáir muni gá hvort rétt sé farið með og enginn af þeim sem gái, nenni að
andmæla.  Einföld stjórnkænska sem nærist á leti lýðsins. 
Auk þess má alltaf veðja á að ákveðin prósenta þjóðarinnar lesi ekki andsvör, heldur lifi bara fullsátt í lyginni.

Þannig eru eflaust ófáir sem halda að námsmenn á Íslandi hafi það stórum betra en námsmenn annars staðar á Norðurlöndunum. 
Af því Þorgerður Katrín sagði það, sjáðu til.
Sjálfur hefði ég ekki nennt að leiðrétta uppskafningsþruglið í Þorgerði – og þakka því Garðari Stefánssyni pent fyrir ómakið.

Íslenskir ráðamenn hafa ávallt þurft á hvítum lygum að halda í samanburðarleikfimi sinni, því annars koma þeir svo fjandi illa út.  Hafa ávallt – og munu ávallt.

Þar til menn skipta út þeim sem ljúga fyrir þá sem gera.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

I am not a crook

by Baldur McQueen

Formaður íhaldsins gerist nú gráhærður mjög vegna óþekktar Árna Johnsen.  Tæknileg mistök eða grafalvarlegir glæpir; það er spurningin!
Sennilega eru um 299.999 Íslendingar sem átta sig á réttu svari, þó sumir láti sér í léttu rúmi liggja.

Kannski Árni ætti að fara að ráðum Ronald og leggjast í skriftir?

Politics is not a bad profession. If you succeed there are many rewards, if you disgrace yourself you can always write a book.
(Ronald Reagan, fyrrum forseti Bandaríkjanna)

Það er hins vegar Richard Nixon sem á fyrirsögn pistilsins.
———
Man annars einhver eftir 1. maí, 2003?

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Úr buxunum…

by Baldur McQueen

Bæjarráð Fuenlabrada hefur nú ákveðið að helmingur umferðarljósa í bænum skuli vera með grænum konum, í stað karlanna.  Hlutfallið ætti að sjálfsögðu að vera hærra, því miðað við margræddan launamun kynjanna eru konur líklegri til að nýta sér gönguljósin.  Meðan karlmenn bruna framhjá á jeppunum sínum.

Annars er þetta eitt mesta rugl sem ég hef lesið síðustu vikur.  Ef þetta er það sem jafnréttisbaráttan snýst um í dag, þarf fólk að velta fyrir sér hvort ekki séu til mikilvægari mál að berjast þarf fyrir. 
Svona tittlingaskítur er í raun vatn á myllu þeirra sem afneita kúgun kvenna.  Fráleitur gjörningur sem gefur sterklega til kynna að fullu jafnrétti sé náð – og mönnum vanti verkefni.

Eftir áratuga baráttu fyrir að "fá" að ganga í buxum – er eitt af meginmálum kvennahreyfinga að þvinga götuljós í pils.
———
Litla systir og maðurinn hennar komust inn á topp 10 listann yfir bestu Sykurmola "cover-in".  Hingað fara allir viti bornir menn og kjósa R.Cup áfram!

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Ljót er hlíðin

by Baldur McQueen

Ég velti fyrir mér í fyrri pistli hversu marga brennivínið dræpi á ársgrundvelli; til að setja sæmdarmorð múslima (og annarra trúarhópa) í eitthvað samhengi.  Blaðamenn The Independent, sem ugglaust lesa pistla mína af áfergju, segja mér að fórnarlömbin séu um 22.000.
Sæmdarmorð eru um 13 á ári – sem er hér um bil sami fjöldi og bakkus nær á fimm klukkustundum. 
Bindindisregla Kóransins er skynsamleg.
————
Mér skilst að Guðmundur Steingrímsson hafi leyst "stóra innflutningsvandann".  Senda alla útlendinga til útlanda – og flytja Íslendinga heim.  Fjöldin mun vera sá sami, eða því sem næst.  Án efa stórgóð hugmynd, en hætt er við að suma þyrfti að draga með töngum.
———–
Í Kína talar maður ekki um kínverskan mat.  Maður talar bara um mat.  Langsótt – en þetta var það fyrsta sem mér datt í hug við lestur fréttar um meint samráð Icelandair og Iceland Express.
Það ríkir allt að því þjóðarsátt um samráð af þessu tagi.  Af hverju að vera yfirleitt að minnast á þetta?  Það skilar engu. 
Væri mönnum almennt annt um orðspor þjóðarinnar, myndi enginn kjósa þá sem (í)haldið hafa verndarhendi yfir Olíumafíu Íslands.
———–
Ég veit ekki hvort eftirfarandi er rétt eftir Árna Johnsen haft, en sniðugt er það.

Árni kvaðst í dag kjósa að gleyma því sem liðið er en sækjast í það sem er fram undan (leturbreyting mín).
(visir.is – 12/11 2006 )

Kannski er ég bara illkvittinn.  Segi bara eins og er; svona skrípaleikur getur bara átt sér stað í einu af "lítt spilltasta" (lesist: blindasta) þjóðfélagi heims.

Bölvaður sé veraldarvefurinn og fréttir á hraða ljóssins.  Fjarlægðin nær ekki einu sinni að blekkja.  Hlíðin er einfaldlega ljót.
Og erum við þá aftur komin að töngunum.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Mótsagnir huldumanns

by Baldur McQueen

Ég á til að skella mér í umræður á vefsíðu Össurar Skarphéðinssonar, þegar efni vekur áhuga.  Nýverið benti ég huldumanninum Vilhjálmi á, að hvort sem honum líkaði betur eða verr þá bera Íslendingar fulla ábyrgð á innrásinni í Írak – og öllum eftirmálum.  Sú ákvörðun braut fullkomlega lög um þingsköp.

Ég get ekki staðist freistinguna að birta svar hans í heild sinni (án lagfæringa – tíminn er dýrmætur og villurnar of margar):

Já ég get sannarlega verið ekki bara leiður heldur hundleiður eins og fólk flest á gömlu klisum fólks um hver ber ábyrgðina á hinum og þessum stríðátökum eins og þeim t.d. í Afganistan.Hér er hinn týpiska þröngsýni afhjúpuð..Þú ásakar mig, með eftir farandi orðum"því þitt stríð er í sjónvarpinu og þú tekur þér hvíld eftir þörfum.'Eg á ekkert í þessu né öðrum stríðum því ég er friðarsinni eins og flestir íslendingar, þó svo ég gangi ekki um bæinn spertur í nafni friðar svo allir sjái hve góður ég er.Það vill nu svo bara til að við búum í lýðræðisríki.Nú skal ég útskýra svolítið fyrir þér, lýðræði virkar þannig að meiri hlutinn ræður ,ég endurtek meiri hlutinn ræður,alveg eins og þegar R-listinn réð ríkjum hér um árið,blessuð sé minning hans.Ef að ríkistjórn þessa lands ákveður að styðja við bakið á hernaðarbrölti og hefur til þess meirihluta þá er það bara þannig.En fyrir suma virkar lýðræði ekki þannig,heldur fara menn í fýlu og tala um misnoktun um lög varðandi þingsköp,,halló meira segja ISG er búinn að átta sig á þessum hlut sem kallast lýðræði.En ef þú Baldur vilt gera eitthvert raunhæft í vondastríðinu sem vondikarlinn í usa hefur með að gera hafðu þá samband við Ögmund í vinstri grænum.Og biddu hann að beita áhrifum sínum á systurflokk sinn í Noregi.Þannig hefur vinstri stjórnin í Noregi markvist aukið hernaðar íhlutun Noregs í Afganistan síðan hún komst til valda.,bæði með fjölgun hermanna og flutningi sprengjuvéla þangað.Ef þú heldur að stríðstól vinstri stjórnarinnar í Afganistan sé upp á punt þá er það allgjör miskilingur hjá þer.Látu nú gott af þér leiða og gerðu eitthvað í málunum, heldur en að reyna klýna einnhverju stríði upp í kokkið á mér.Sem sagt niðurstaðan í þessu máli er, að þú lýtir þér næst,og byrjir á að reyna að hafa áhrif á þeim sem standa í stríðsrekstri og væri ekki þá best á að byrja á skoðanabræðrum þínnum þarna í Noregi.Og reyndu svo að vera pínulítið jákvæðari,það eykur langlífi,ég las það einnhverstaðar..með kveðju
Posted by vilhjálmur (88.91.167.42) on November 11, 2006 at 11:20 PM GMT #

Hvað getur maður sagt? 
10.00 fyrir dálksentimetra, 1.00 fyrir innihald.  Svona í ljósi þess að ábending um jákvæðni er ágæt. 
Mótsagnirnar eru frábærar.  Vilhjálmur er harður á því að mönnum beri að beygja sig undir vilja meirihlutans, en telur jafnframt að hann geti rétt sí svona varpað af sér allri ábyrgð á þátttöku Íslendinga í innrásinni.  Barnalegt í besta falli. 
Gullpunktur um meinta fýlu mína yfir lögbrotum – sýnir svart á hvítu ástæðu þess að pólitísk spilling grasserar á Íslandi – sama hvað misvitrar stofnanir kunna að segja um það.  Menn samþykkja einfaldlega spillinguna og öll gagnrýni afskrifuð sem "fýla".
Miðað við prósentu mannvitsbrekka á borð við Vilhjálm í íslensku þjóðfélagi, er ekkert undarlegt við það að Árni Johnsen skuli vera á leið á þing enn eina ferðina.  Maður er eiginlega mest hissa á að hinn "fangelsisfuglinn" af sama lista hafi dottið út.

Varðandi fullyrðingar Vilhjálms þess efnis að hann sér friðarsinni – þá er fróðlegt að grípa niður í skammarræðu hans frá deginum áður.

Og þessir miklu friðarsinnar með samviskuna eina að vopni hneykslast og skilja svo ekkert í okkur hinnum fyrir hve kaldlindir og stríðelskandi við erum.Já og meðan ég man berum við þá ekki líka ábyrgð á fjöldamorðunum í London og Madríd.Svo kallaðir friðarsinnar hljóta að getað klínt því á okkur með einnhverjum rökum, það er einfaldlega í eðli þeirra að gjöra slíkt.
Posted by Vilhjálmur (88.91.167.42) on November 10, 2006 at 09:09 PM GMT #

Það er engu logið um það – hláturinn lengir lífið. 
Ekki veit ég í botni hvaða flösku Vilhjálmur fann Noreg sem vænlegt "fórnarlamb" aðgerða af minni hálfu, en það eykur skemmtanagildið um helming.  Tær snilld.  Ætli það sé ekki nærtækara fyrir mig að x-a við einhvern annan en Blair (eða Brown – eða hver sem það verður)?

Þessi pistill er sjálfvirkt stilltur þannig að hann hverfi innan sólahrings.  Hver svo sem huldumaðurinn er, þá vekur orðalag og stíll hjá mér efasemdir um að fallegt sé að gera að honum grín.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Kristnu bytturnar

by Baldur McQueen

Og þá er komið að útlendingunum.  Máli málanna á Íslandi í dag, þó þorri þjóðarinnar hafi í besta falli bókvit á efninu.  Segjum það bara eins og er.  Ég slæ að minnsta fram í fullkomnum hroka, að ég viti meira um fjölmenningu en flestir innan hins svokallaða "Frjálslynda" flokks.  Ég bý í sannkölluðu fjölmenningarsamfélagi, hef sótt tugi námskeiða um efnið og mitt meginstarf er í þágu barna sem flúið hafa í faðm Bretlands, frá hörmungum heimafyrir.

Ég vil síður stökkva fram og kalla málsvara frjálslyndra rasista, enda er það risavaxið orð sem nota ætti varlega.  Aðferðafræðin er hins vegar vel þekkt.  Ætlunin er að kveikja elda; veiða atkvæði út á mýtur sem standa ekki undir sér.  Kaffæra heildarmyndina í jaðardæmum.  Rökfræðin er einföld.
Múslimar fremja sæmdarmorð og þau eru viðurstyggð.  Þar af leiðandi ætti ekki að hleypa múslimum í landið.  Reynt er að skapa "Bush-ískan" veruleika, þar sem menn verða annað hvort að taka afstöðu á móti múslimum eða með sæmdarmorðum.

Scotland Yard believe there were 12 'honour killings' in the UK last year and said they were not restricted to Muslims, but also occurred in Sikh and Christian families.
(BBC)

Nú eru sæmdarmorð þekkt meðal fleiri hópa en múslima – m.a. kristinna manna; sem vekur upp spurningar um hvort frjálslyndir séu einfaldlega ekki nógu fróðir um efnið til að fjalla um, eða hvort framsetningunni er ætlað að ala á ótta sem þegar er fyrir hendi, m.a. vegna einhliða fréttaflutnings. 
Það má, þvert á móti færa fyrir því rök að dauðaslysum og morðum á Íslandi myndi fækka ef allir gerðust múslimar.  Svo maður velti sér örlítið í sandkassa frjálslyndra.
Það er nú einu sinni svo, að Kóraninn bannar ekki bara sæmdarmorð – hann bannar líka neyslu áfengis.
Hvað tekur brennivínið mörg mannslíf á ársgrundvelli? 

Mistök nágrannalanda hafa ekki verið þau að hleypa fólki inn; heldur skortur á undirbúningi og framsýni.  Af því geta Íslendingar lært, að því tilskyldu að umræðan komist á hærra plan en núna (ég átta mig á mótsögn við heiti pistilsins).

Annars bendi ég bara á hófstillta pistla Jóhönnu Sigurðardóttur og Akeem Cujo Oppong .

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Marshall ábyrgur aftur?

by Baldur McQueen

Man einhver eftir því þegar Halldór Ásgrímsson birtist í fjölmiðlum með gífuryrði þess efnis að Íslendingar hefðu fundið efnavopn í Írak?  Fréttir af því, sem síðan reyndist vera "genetískt" líkara pylsusinnepi en efnavopnum, birtust á forsíðum flestra ef ekki allra íslenskra dagblaða.
Örflokksídíótinn ritaði sjálfur formálann að sinnepssögunni – þegar hann gerði Íslendinga ábyrga fyrir innrásinni í Írak; hvar menn hafa enn, ekkert fundið merkilegra en meðlætið fyrrnefnda.  Saklausum borgurum slátrað í þúsundavís og landið í algerri upplausn.
Ef ekki væri fyrir að íslenskir stjórnmálamenn eru yfirleitt hafnir yfir lög, hefði Halldór þurft að bera ábyrgð á gjörðum sínum – ásamt lögfræðingnum í hagfræðigærunni sem situr nú í stól seðlabankastjóra, landi og þjóð til háðungar.

Halldór og Davíð tóku enga ábyrgð á gjörðum sínum. 
Það gerði hins vegar fréttamaðurinn sem gerði alvarleg mistök í vinnslu fréttar um tilurð innrásarinnar.  Sá fréttamaður, Róbert Marshall, axlaði sína ábyrgð að fullu – og sagði af sér í kjölfarið.

Það er því einstaklega ógeðfellt að lesa nýjasta pistil eins af kálfum Halldórs Ásgrímssonar, hvar hann dregur Róbert enn til ábyrgðar á fréttaklúðrinu.  Ekkert er minnst á ákvörðun fyrrum formanns, sem gerði hvert einasta mannsbarn á Íslandi að þátttakanda í blóðugri innrás, sem enn krefst sinna fórnarlamba burtséð frá kyni og aldri.

Hvor afleikurinn skyldi nú vera stærri í augum Björns Inga?

FacebookTwitterGoogle+Pinterest