baldurmcqueen.com

Month: December, 2006

Rass ráðherra

by Baldur McQueen

Ég átta mig illa á þeirri umræðu sem orðið hefur í kjölfar þess að Ingibjörg Sólrún, formaður Samfylkingar, sagði flokkinn eiga við vandamál að stríða.  Nú skal það viðurkennt að ég hef ekki nennt að hafa mig eftir ræðu hennar orðréttri, en skilst að Ingibjörg hafi talað nokkuð hreinskilnislega um það sem flokknum stendur fyrir þrifum og laga þarf.

Viðbrögðin eru einkennileg.  Mætir menn minna helst á skólabörn, eftir að buxunum hefur verið kippt niður um félaga þeirra.  Skyndilega uppgötva þau, að viðkomandi er með rass.  Og til að passa vel og rækilega að engin telji að þau sjálf séu með einn slíkan, þá er bent, hlegið og gert grín.

Sjávarútvegsráðherra ritar langan pistil um málið, hvar mest púður fer í að útskýra hvað þetta sé nú allt afskaplega sniðugt.

En þau [þingmenn Samfylkingar] voru bara svo óskaplega hlægileg. Og þess vegna hló þingheimur.
Ég get fullvisað lesara þessarar síðu að ég reyndi að halda
alvörusvipnum, en ég bara náði því ekki.
(www.ekg.is – 6/12 2006)

Þetta ritar ráðherrann sem lá svo á í jólagjafainnkaup í Washington, að hann gleymdi alveg að athuga hvort einhver vildi hitta hann.  Ráðherrann sem hefur með arfavitlausum atkvæðaveiðum, stórskaðað íslenska viðskiptahagsmuni.

Ég vil ekki fullyrða neitt; en eftir því sem ég skoða feril háttvirts sjávarútvegsráðherra betur, sannfærist ég frekar um að fleiri en Samfylkingin séu með rass.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Guernica

by Baldur McQueen

Fyrst orðrétt endurvinnsla á færslu frá sama degi í fyrra.  Til hvers að finna upp hjólið?

Þá hefur þingið lokið störfum á Íslandi.  Jólafrí milli 9. desember og
17. janúar.  Yfirleitt er það lengra, en þeir neyðast víst til að koma fyrr úr fríinu vegna sveitarstjórnarkosninga sem framundan eru.
Breska þingið fer í jólafrí frá 20. desember til 9. janúar.
(baldurmcqueen.com  –  10/12 2005 )

Jæja.  Mér skilst reyndar að alþingi komi aftur saman 15. janúar þetta árið, svo gagnrýnin er ekki kórrétt.
————
Sennilega smáatriði, en þó athyglivert, að með skipun Herman Göring sem yfirmanns þýska flughersins (Luftwaffe) árið 1935 hrinti Adolf Hitler af stað atburðarrás sem tengir saman Göring, listamanninn Pablo Picasso og – löngu síðar – Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Í apríl 1937 var Göring í leit að einföldu verkefni fyrir lítt þjálfaða flugmenn Condor sveitanna, sem höfðu það meginhlutverk að aðstoða fasista í spænska borgarastríðinu.  Göring vildi þess utan sjá hvað til þyrfti til að leggja heila borg í rúst – og valdi smábæinn Guernica til að gera þá tilraun.  Tilgangur Francisco Franco, leiðtoga fasista, virtist helst sá að valda ótta meðal borgara og draga mátt úr repúblikönum.
Condor sveitirnar lögðu upp í flugið þann 26. apríl og jöfnuðu bæinn við jörðu á um þrem klukkustundum með þéttriðnu sprengjuneti.  Óvíst er hversu margir létu lífið í árásunum, en fullvíst er að látnir voru taldir í hundruðum. 
Hér má finna nokkrar tilvitnanir í heimsblöðin frá þessum tíma.

Picasso hafði lítið skipt sér af pólitík fram að árásinni, en hún varð kveikjan af því sem síðar hefur verið kallað "mikilvægasta verk 20. aldarinnar".  Verkið Guernica, þykir sýna hörmungar stríðsátaka á einkar kaldranalegan hátt og er svart-hvítt yfirbragðið síst til þess fallið að draga úr þeim áhrifum.  Um fá verk hafa jafn margar bækur verið ritaðar, enda eru menn enn að finna nýjar leiðir til að "útskýra" symbolisma verksins; sem er um 3.5 metrar á hæð og átta metra breitt.
Sjálfur vildi Picasso aldrei útskýra verkið.

What ideas and conclusions you have got I obtained too, but instinctively, unconsciously. I make the painting for the painting. I paint the objects for what they are.
(Pablo Picasso)

Árið 1985 var eftirprentun af verkinu gefin Sameinuðu þjóðunum og hefur síðan hangið á vegg í salarkynnum Öryggisráðsins.
Samkvæmt Washington Times, hafa sjónvarpsmyndavélar gjarnan rennt í rólegheitum yfir verkið, til uppfyllingar meðan ræðumenn ganga úr og í salinn. 
Það kom því mörgum á óvart, þann 5. febrúar 2003, að stórfenglegt listaverk Pablo Picasso hafði verið hulið bláum dúk.  Tilefnið var ræða Colin Powell, hvar hann reyndi að sannfæra Öryggisráðið um mikilvægi þess að ráðast inn í Írak.
Að margra mati er symbolismi þess að fela málverkið, síst minni en finna má í verkinu sjálfu.  Þeir sem neita að horfast í augu við söguna, eru dæmdir til að endurtaka hana.

Innocent Iraqis — men, women and children — will pay a terrible price. And it won't be possible to pull a curtain over that.

Þetta sagði ástralski þingmaðurinn Laurie Brereton árið 2003, stuttu áður en siðlaus innrás hinna viljugu hófst.  Rétt eins og milljónir annarra, varaði hún við stríðinu, lagðist gegn því og baðst undan að þjóð hennar tæki þátt. 

Blái dúkur ráðherrans var einungis sýnilegur heimskum mönnum.  Við öðrum blasti Guernica í allri sinni dýrð; skýr fyrirboði um það sem koma skyldi.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Sannleikurinn er lygi

by Baldur McQueen

HvalirHvalaumræðan er hafin á ný í kjölfar þess að Whole Foods Market í Bandaríkjunum ákvað að hætta markaðssetningu íslenskra vörutegunda.  Er til eitthvað súrrealískara en íslensk umræða um skilningsleysi útlendinga?
Sumir virðast halda að allt sem til þurfi sé aðsend grein.  Að hver sem er geti með litlum tilkostnaði náð til 99% bandarísku þjóðarinnar, rétt eins og á Íslandi.  Misskilningur leiðréttur með 2-3 dálksentimetrum, hvar réttur Íslendinga til hvalveiða er útlistaður. 
Í kjölfarið muni 300.000.000 manna þjóð þegar í stað átta sig á villu síns vegar og hefja magninnkaup á öllu sem íslenskt er.  "Oh, yes.  Now we see the light".

Því miður er vægi umræðunnar á Íslandi ekkert.  Menn gætu allt eins farið út að morgni og rifist við ruslatunnuna; það er engin að hlusta. 
Sannleikurinn er sá sem Greenpeace og hliðstæð samtök ákveða; sama hversu mikil lygi það er.  Því fyrr sem menn átta sig á þeirri staðreynd, því fyrr geta menn farið að byggja upp markaði af einhverju viti – og viðhaldið þeim.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Úpps!

by Baldur McQueen

Þættinum hefur borist bréf.  Tilefnið er frávísun krafna á hendur íslensku olíumafíunni, sem varð uppvís af alvarlegum brotum á samkeppnislögum fyrir nokkru.

Þegar á reynir virðist það bara ágætlega arðbært að þverbrjóta
samkeppnislögin og ljúga sig svo út úr öllu saman. Ekki síst þegar menn
hafa dómskerfið í vasanum og geta bara gefið samfélaginu langt nef,
enda eflaust rétt sem olíuforstjórinn sagði í tölvupóstinum sem hann
gleymdi að eyða, þ.e. "Fólk er fífl!"

Nokkuð raunsönn greining, að mínu mati. 
Hér er um aðila að ræða, sem í níu ár greiddu vart hár sitt án þess að senda tölvupósta til samráðs.  Lækkanir olíuverðs á heimsmarkaði skiluðu sér ekki fyrr en eftir dúk og disk – en hækkanir áttu sér stað samdægurs.  Viðkvæðið alltaf það sama.  Þegar bensín lækkaði um allan heim, áttu íslensku félögin gífurlegar birgðir sem það keypti á óhagstæðum tíma.  Úpps!  Ómögulegt að lækka verðið á þessari stundu.
Þegar heimsmarkaðsverðið hækkaði, voru engar birgðir af "hagstæðu bensíni".  Verðið hækkað um leið.  Hjá öllum.  Alltaf sammála, á sama tíma!  Sama greiðsla, hvert sem litið var.
————
Íslensk olíufélög eru ekki þau einu sem beita siðlausum aðferðum.  Þannig ver ExxonMobil háum fjárhæðum í að gera umræðu um hlýnun jarðar tortryggilega.  Evrópskum stofnunum er greitt fyrir að draga gróðurhúsakenninguna í efa og berjast gegn Kyoto sáttmálanum og viðlíka meðölum.
ExxonMobil eyðir næstum því jafn miklu í auglýsingar um hversu umhverfisvænt fyrirtækið sé – og hversu mikinn skilning það hafi á vandamálum varðandi hlýnun jarðar.
Í fullkomnum heimi myndi fólk kynna sér hvernig best væri að sneiða hjá viðskiptum við úlfa í sauðagærum.  Kannski er fólk bara fífl og fyrirtækin vita það?
————-
Þeir sem ekki hafa lesið greinina "Aðgerð Strútur" á vefsíðu Guðmundar Steingrímssonar, ættu að gera það hið snarasta.  Stórskemmtileg, svo vægt sé til orða tekið.  Myndin sem Halldór Baldursson skopmyndateiknari gerði í kjölfarið er snilld!

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Björn Bjarnason og 26/11

by Baldur McQueen

Geir Haarde gerðist nýverið samherji Björns Bjarnasonar í "stríðinu gegn þjóðrembu".  Vísast sitja þeir nú sveittir við að koma upp lista yfir viljuga sem veitt geta (mismikið) lið í baráttunni.

Geir H. Haarde forsætis-ráðherra sagði það furðuleg stærilæti að halda
að afstaða Íslands hefði skipt einhverju máli í alþjóðasamhengi.
(visir.is – 1/12 2006)

Sé litið örlítið aftur í tímann, má næstum segja að mikilvægi Íslendinga á alþjóðavettvangi sveiflist ívið meira en gjaldmiðill þjóðarinnar.  Ef hægt er.

Þetta eru fyrstu gjöreyðingavopnin
sem finnast í Írak. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir
þetta mikið afrek hjá íslensku sprengjuleitarmönnunum og staðfestingu
á mikilvægi Íslendinga í alþjóðlegu starfi.

(RUV – 10/1 2004)

Ég læt vera að minna á hvernig ofangreind frétt fuðraði upp á örskömmum tíma.

Sérlega gaman er að lesa Björn Bjarnason, sem spáir sennilega ekkert í hvað hann ritar á vefinn sinn.  Eftirfarandi ritaði hann 26 nóvember árið 2003:

Stundum gætti hér á landi einangrunarhyggju sem oft hefði verið sett
fram undir merkjum hagræðingar eða sparnaðar eða því hefði verið haldið
fram að Ísland væri svo lítið að framlag þess skipti hvort eð er engu
máli.
[…]
Vegna umræðna á líðandi stundu má einnig minna á, að Íslendingar hafa
aldrei grætt neitt á því í alþjóðasamskiptum að leggja áherslu á, að
þeir séu fáir og smáir.
(Björn Bjarnason, 26/11 2003)

Og svo eftirfarandi á nákvæmlega sama degi, þrem árum síðar.  Skemmtileg tilviljun

Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega
mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands
hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak.
(Björn Bjarnason, 26/11 2006)

Burtséð frá því, þá verð ég að viðurkenna ákveðna undrun á hversu lítið hefur farið fyrir umræðu um niðurlægjandi athugasemdir Geirs og Björns.  Kannski menn séu yfir höfuð sammála því að þjóðin sé of aum til að bera ábyrgð? Líkt og veikur maður sem sviptur hefur verið sjálfræði?  Kannski eins og barn?

Það er auðvelt að ímynda sér viðbrögðin ef ráðherra erlends ríkis segði
Ísland of ómerkilegt á alþjóðvettvangi til að bera ábyrgð á gjörðum
sínum.
Hingað til hefur ekki þurft mikið til að kveikja í mönnum:

Davíð Oddsson: "Evrópusambandið er eitthvert ólýðræðislegasta skriffinskubákn sem menn hafa hafa fundið upp."
(Mbl. 23.06.2002)

Sabathil (sendiherra ESB): "Yfirlýsingin er mjög hörð […] undarlegt að Ísland skrifaði undir samninga við svona ólýðræðislega stofnun"
(RÚV 27.06.2002)

Davíð: "Mér finnst mjög sérstakt að sendiherra í einhverju landi ráðist með þjósti að forsætisráðherra viðkomandi ríkis. […] Að vísu hef ég séð til þessa sendiherra áður hluti sem eru með miklum ólíkindum. […] Ef hann þekkir ekki það sem menn kalla almennt í Evrópu lýðræðisvanda Evrópusambandsins er hann gjörsamlega úti að aka."
(Mbl. 30.06.2002)

Óþarft er að taka fram, að Davíð hlaut mikið lof fyrir ofangreint.  Frá þeim meðvirku.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest