baldurmcqueen.com

Month: June, 2008

Aumingja Gordon

by Baldur McQueenMyndin er eftir Peter Brookes, tekinn af Times Online 28.06.08

Óveðursský hrannast yfir herra Brown.  Í gær birtust fréttir af stórtapi í Henley, hvar aukakosningar fóru fram til að fylla í skarð sem Boris borgarstjóri skyldi eftir sig.  Framundan er barátta við alþýðuhetjuna David Davis, sem nýtir hvert tækifæri til að niðurlægja Brown og hæða. 
Gordon var hættulega veikur fyrir, en stendur nú svo höllum fæti að innanbúðarmenn í flokknum gætu senn þurft að velja milli hagsmuna formannsins eða flokksins.  
Sú staðreynd að Verkamannaflokkurinn raðist á eftir BNP, í aukakosningum í Henley, kallar á aðgerðir.  Þetta er fall úr 14.7% 2005 í 3.1% 2008; niðurlægingin verður vart meiri.

Í dag steig svo Wendy Alexendar úr formannsstól skoska Verkamannaflokksins eftir víti frá þingingu fyrir að tilkynna ekki um gjafir sem henni bárust í leiðtogabaráttunni.  
Til að fullkomna vesældina er síðan viðbúið að enn einar aukakosningarnar verði haldnar, nú í Glasgow East, þegar David Marshall, Verkamannaflokki, lætur af þingmennsku sökum veikinda.

Glasgow East would normally be considered an extremely safe seat, with Marshall winning more than 60% of the vote in the 2005 general election to secure a majority of 13,507.
However, such is the malaise enveloping Labour that any electoral test is fraught with possible danger.
(Guardian, 28.06 2008)

Kjósendur virðast ekki horfa á störf Brown sem fjármálaráðherra, sem vissulega voru aðdáunarverð, né heldur stöku stórvirki á nýjum vettvangi.  
Kjósendur horfa á manninn sem klippti burtu 10% skattþrepið og setti láglauna fólk í sama þrep og millistétt; 20% skattur – engin miskunn.  
Kjósendur horfa á mann sem er svo gersneiddur sjarma að meðaldýr svefnsófi úr Ikea myndi sennilega fá fleiri atkvæði, gætu slíkar mublur boðið sig fram.
Þannig er þetta í pólitíkinni og það mun ekki breytast fyrir næstu þingkosningar.  

Gordon Brown fær ekki fleiri sénsa; ef ekki á sér stað kraftaverk á næstu vikum verður honum vísað á dyr á flokksþinginu í Manchester, næstkomandi september.

Sjálfur hef ég töluvert álit á Brown, en hlýt að horfa á staðreyndir. 
Þegar ég hlusta á viðtöl við mæta menn sem halda því fram að í fylgishruni verkamannaflokks búi mikil tækifæri – minnir það óþægilega á leðjuna sem vellur úr Geir Haarde varðandi kosti krónunnar.
——-
Talandi um krónuna.  Eftirfarandi er snilldarbrot úr frábærri grein Eiríks Bergmann:

Þeir segja að lækningin felist í að fá meiri pening frá útlöndum. Menn þurfa skammtinn sinn. En sú gamla veit ekki sitt rjúkandi ráð og fjasar bara um óviðjafnanlegan teygjanleika íslensku krónunnar. Sjáðu hvað hægt er að toga hana og teyja, sagði sú gamla hróðug á fundi London, sveigja hana og beygja, fetta og bretta. Út og suður. Og það þrátt fyrir ríflega þriðjungsfall á innan við hálfu ári.
(Eiríkur Bergmann, Eyjan – 27.06 2008)
——–
Er rétt hjá mér að stjórnmálaflokkar eigi alltaf að vera með stórum staf – en þegar talað er um flokksmenn (t.d. sjálfstæðismenn) eigi það að vera með litlum?
——–
Á morgun er stefnan sett á tónleika með Radiohead.  Mikið fjör á Old Trafford Cricket Ground.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

ESB og bloggbannið

by Baldur McQueen

Menningarnefnd Evrópuþingsins hefur nú meðtekið skýrslu frá eistnesku þingkonunni Marianne Mikko.  Skýrslan er unnin að frumkvæði Mikko og hefur ekkert lagalegt gildi í Evrópusambandinu.

Umfjöllunin á Íslandi einskorðast við kranafrétt í Morgunblaðinu, hvar blaðamaður kýs að taka einn anga skýrslunnar og birta líkt og um meginmál sé að ræða.  Í athugasemdum birtast að sjálfsögðu klassísk viðbrögð ESB andstæðinga.  Histerían er hreint dásamleg.

Í fyrsta lagi er rétt að árétta að skýrslan er svokölluð "own initiative" skýrsla; þ.e. unnin að frumkvæði viðkomandi þingmanns.  Þvert á það sem blaðamaður hins virðulega Morgunblaðs virðist gefa í skyn, hefur skýrslan hvorki lagalegt gildi, né stöðu lagafrumvarps.

Í öðru lagi má taka fram að meginefni skýrslunnar snýr að frelsi fjölmiðla og leiðum sem hugsanlega mætti fara til að koma í veg fyrir að eigendur, hluthafar og/eða stjórnvöld geti haft áhrif á ritstjórn fjölmiðla.  Því er haldið fram að gróðafíknin sé farin að skaða fjölmiðla, hefta tjáningarfrelsið og skerða fjölbreytileika í menningu.  Lagt er til að samkeppnislög verði innleidd svo tryggja megi fjölbreytni miðla.
Í framhaldi er lagt til að sáttmála verði komið á í löndum ESB, en honum væri ætlað að tryggja aðskilnað milli efnistaka og viðskiptastefnu miðla.  
Þá er mælt með að sjálfstæður talsmaður fjölmiðla starfi í hverju sambandsríki, hvers hlutverk væri virkt eftirlit með frelsi þeirra, fjölbreytni og sjálfstæði.
Að síðustu er mælt með fullkomnu gagnsæi varðandi eignarhald fjölmiðla.
Þetta er það sem skýrslan snýr að í meginatriðum og hefði mörgum bloggaranum farið betur að kynna sér efnið áður en stokkið var stað í trausti þess að Morgunblaðið væri hér að greina frá sannleikanum, öllum sannleikanum og engu nema sannleikanum.

Í þriðja lagi má geta þess að vangaveltur um bloggheima snúa að skýrari meiðyrðalöggjöf, réttindum borgara varðandi myndbirtingar og hugsanlegum greiðslum fyrir myndir og annað efni sem fjölmiðlar kjósa að nýta sér.
Þá er fjallað um leiðir til að aðstoða almenna borgara við að svara fyrir sig, ef þeir telja að sér vegið í bloggheimum.
Að síðustu er talað um skráningu á bloggum, sem yrði val hvers og eins.

Ég sé fjölmarga galla á þeim þáttum skýrslunnar sem snúa að bloggheimum.  Þar eru áberandi tillögur um að laga það sem ekki er brotið.  Sumt er fráleitt, annað verður að skoðast í því ljósi að verið er að reyna sjá fyrir vandamál sem ekki eru til staðar í dag. 
En skýrslan, í heild sinni, tekur á mikilvægum málum sem maður hefur m.a. heyrt ESB andstæðinga kvarta hástöfum yfir, þ.e. óeðlilegum afskiptum eigenda, hluthafa og/eða stjórnvalda af fjölmiðlum.

Það eru vissulega viðkvæm blóm meðal andstæðinga ESB, fyrst ágætar vangaveltur frá valdsmáum þingmanni koma þeim svo kyrfilega úr jafnvægi.
En upphrópanir þeirra eru stórskemmtilegar að mörgu leyti; sérstaklega sú árátta að setja samasem merki milli ESB og heimskulegra mála sem vissulega skjóta upp kollinum við og við.
Með sömu mælistiku mætti segja Mecca heimskulegrar umræðu, Ísland, sé misheppnuð tilraun.

Heimildir: fréttir, fundargerð og drög af http://www.europarl.europa.eu

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Hannesi til hálfvarna

by Baldur McQueen

Varðandi gagnrýni á Hannes Hólmstein er mikilvægt að horfa víða og sjá hvernig tekið er á ámóta vanda í hinum stóra heimi.
Svanur Kristjánsson hefur að mínu mati haldið uppi réttmætri gagnrýni á Hannes og yfirmenn hans, en hvað einn anga gagnrýninnar varðar, ritstuldinn, mun það vera vel þekkt fyrirbæri meðal kennara og sívaxandi vandamál í fjölmörgum æðri menntastofnunum; jafnvel þeim sem samkvæmt flestum mælikvörðum teljast til þeirra virtustu í heimi.  Í sjálfu sér réttlæta slæm fordæmi ekki alvarlegar yfirsjónir fræðimanna, en víðsýnin setur þó Hannesarmál og heiður Háskóla Íslands í eitthvert samhengi.
Ekki er vanþörf á, því ýmist er talað um Hannes sem mesta syndasel norðan Alpafjalla eða Svan sem kommúnista sem vart þarf að taka mark á.  Grátbroslegt er að sjá sérlega heimskulegt innlegg Björns Bjarnasonar um málið.  Kemur manni þó fátt á óvart úr þeirri átt.

Leiti maður upplýsinga um menn í svipaðri stöðu og Hannes, sem fengið hafa á sig alvarlegar ásaknir um ritstuld, er úr nægu að moða.  Maður þarf reyndar að þrengja leitina töluvert til að fara ekki halloka fyrir magni niðurstaðna.
Sé einungis litið á risann sem gnæfir yfir aðra – Harvard háskóla – má finna ófá tilfelli hvar starfsmenn hafa orðið uppvísir af slíkum brotum án teljandi eftirkasta.  Þar má nefna einn helsta fræðimann demókrata í Bandaríkjunum, Larry Tribe, sem árið 1985 gaf út bókina God Save This Honorable Court, en í henni var heill kafli fengin "að láni" úr bók Henry J. Abraham, Justices and Presidents (1974).
Rektor Harvard háskóla stóð þá þétt við bak Larry og taldi yfirsjónina ekki vera þess eðlis að reka þyrfti Larry úr starfi.  Í kjölfarið voru laun Larry svo hækkuð ágætlega í kjölfar stöðuhækkunar.

Fleiri mál má finna á vefsíðunni Harvard Plagiarism Archive.

Á móti má segja að þau dæmi sem ég hef fundið fjalla ekki, svo ég viti, um fræðimenn með dóma á bakinu varðandi ritstuld.  Það er vissulega stór munur sem, að mínu mati, styrkir gagnrýni Svans.
Það er þó óþarfi að láta eins og Hannes hafi framið einhvern þann glæp sem telst dauðasynd í háskólasamfélagi heimsins; því miður er of létt tekið á slíkum málum víðar en á Íslandi.  Munurinn felst í því að Hannes var kærður – og dæmdur – aðrir voru heppnari.  
Jú, Hannes er veikari eftir dóminn, rétt eins og háskólinn, sem tók fagmanninn framyfir fagmennsku.  Og fyrir nemendur, sem vísað er úr skólum fyrir ámóta brot, birtist þarna blóðugt misrétti.

En fordæmin liggja víða og það sem telst fullgott fyrir Harvard…

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Ráðherraábyrgð – Ísland er kamar

by Baldur McQueen

Leiðinlegar eru sífelldar fullyrðingar um að ESB sé ekki lausn.  Um það vita menn ekkert.  Aðferðin virðist sú að margtyggja það svo fólk fari að trúa.  Vissulega er aðgangur að myntsamstarfi fjarlægur raunveruleiki einmitt nú, þegar efnahagsástand á Íslandi stefnir í átt að því versta sem þekkist á vesturlöndum, en aðildarviðræður við ESB eru fyrsta skrefið og myndu jafnvel auka traust umheimsins.

Næsta skref yrði heitstrenging þess efnis að uppfylla kröfur sem gerðar er á lönd sem ætla sér í myntsamstarfið.  Það skref ættu menn að stíga burtséð frá því hvort aðildarviðræður skila einhverju sem sátt getur ríkt um (sem er auðvitað óvíst).
Annars eru lausnirnar í textum þeirra sem vöruðu við hvert stefndi, löngu áður en stjórnmálamenn (og þorri þjóðar) vöknuðu.  Að hlusta ekki einu sinni voru slæm mistök.  Að hafa eyrun enn lokuð í dag, er klárlega heimska.  
Þjóðin mun uppskera eins og hún sáir.

Því auðvitað er það þjóðin sjálf sem ber ábyrgð á því að efnahagsmálin líta verr út á Íslandi en víða á vesturlöndum.  Sökudólgarnir sjást enn víða, með nasirnar upp í loft, ælandi upp erindum um yfirburði Íslendinga og öfund umheimsins.  Og þessu trúa þeir sem aldrei hafa haft kost á "live" samanburði.
Dólgarnir krefjast að sama illgresinu sé aftur og aftur plantað í ríkan jarðveg valdsins, vongóðir um að nú muni það blómstra.  

Tímanum er svo eytt í tilgangslaust hjal um hvort bláa blómið sé fegurra en það rauða.  Húmbúkk.

Bara það hvernig farið hefur fyrir ráðherraábyrgð undanfarin ár, segir allt um hver uppskeran verður á alþingi Íslendinga.  Ráðherraábyrgð þýðir í allra versta falli að illgresinu er umpottað og þykir þægileg staða sendiherra hæfileg "refsing" fyrir verstu brot.  

Meinsemd allra meinsemda liggur í linku gagnvart valdhöfum.  

Þar liggur upphaf vandans og endir.  Fjölmörg mál síðustu ár hefðu með réttu átt að skila sér í fullkomnu fylgishruni flokka, en slíkt á sér ekki stað á Íslandi.  Fjölmargir líta á atkvæðaseðla sem vopn til að berja á náunganum; vinna sigur og geta híað á taparann.  Kosningar verða lítið annað en afbrigði af kappleik sem á sér stað þann daginn en skiptir engu þar eftir.

Verst er að elítan tekur þátt í vitleysunni af fullum krafti.  
Það að stóri samnefnarinn í ríkisstjórnum síðustu ára, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi algerlega hundsað viðvaranir ágætra hagfræðina síðustu ár, er ágætt dæmi um kappleikja viðhorfið sem ríkir.  Viðvaranir komu ekki úr "réttri átt" og voru því ekki marktækar.
Ráðherrar með snefil af ábyrgðartilfinningu hefðu kannað réttmæti svo alvarlegra athugsemda, jafnvel í laumi ef ekki annars.
Ég fullyrði að ef ráðherraábyrgð væri virk á Íslandi myndi staðan í þjóðarbúinu allt önnur.  En svo er ekki.

Þjóðin er eins og starfsmaður á salerni.  Skítalyktin venst smátt og smátt og einungis stærstu stykki minna menn á hvar þeir eru.  Svo venst sá fnykur og haldið er áfram daglegum störfum líkt og ekkert hafi í skorist.

Ísland gæti verið dásamlegt land ef þjóðin gerði kröfur. 

Í dag er það kamar.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Skjótum krónuna

by Baldur McQueen

Íslenska krónan er gömul, lasburða og hætt er við að henni sé ekki við bjargandi; líkt og ísbirna á hrakhólum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur verið kölluð til af minna tilefni.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Getraun um fræga menn – uppfært

by Baldur McQueen

Um síðustu helgi fór ég í WHSmiths og keypti tvær bækur.  Fyrir börnin keypti ég "A Series of Unfortunate Events", fyrsta bindi.  Hef lesið hana fyrir þau síðustu kvöld og virðist hún falla ágætlega í kramið.
Sjálfur keypti ég hnausþykka bók fulla af listum af ýmsu tagi; "The Book of Lists".  Í henni má m.a. sjá lista yfir 10 menn sem hafa grátið opinberlega, 10 menn sem þjáðust af svefnleysi, 10 heimskustu hundategundirnar, 22 eftirminnilega kossa, 9 fræg grínmæli frægra sakamanna og einhver hundruð aðra gagnslausa lista.  Ekki beint djúpt, en ágætt samt.  
Lesi ég bókina spjaldanna á milli verð ég ágætlega samræðuhæfur, en jafnframt þessi óþolandi týpa sem ævinlega veit eitthvað vita gagnslaust um öll umræðuefni.

Í bókinni er einnig listi yfir fræga menn, sem líkt og ég sjálfur (mínus frægðin), tóku sér með ættarnöfnum mæðra sinna.  Á meðal þeirra eru:

William Arden (Shakespeare)
George Ball (Washinton)
Abraham Hanks (Lincoln)
Charles Barrow (Dickens)
Karl Pressburg (Marx)
Charles Wedgwood (Darwin)
Winston Jerome (Churchill)
Mick Scutts (Jagger)
Arnold Jedrny (Schwarzenegger)
Osama Ghanem (bin Laden)

Allir eru þeir vel þekktir, en þá undir ættarnöfnum mæðra sinna.
Ég mun að sjálfsögðu uppfæra listann fljótlega með réttum nöfnum við hliðina, en leyfi mönnum að spreyta sig á þessu þangað til.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Boris setur niður

by Baldur McQueen

Það er afleikur hjá nýkjörnum borgarstjóra London, Boris Johnson, að varpa baráttu gegn rasisma fyrir róða á Rise tónlistarhátíðinni (aka "London United") sem haldinn verður 13. júlí næstkomandi.  Enn vitlausari er sú ákvörðun að banna aðkomu CSC, sem berjast m.a. fyrir afnámi viðskiptahafta Bandaríkjanna á Kúbu.
Johson var oft og iðullega sakaður um rasisma og xenófóbíu í kosningabaráttunni; sem er eðlilegt þegar litið er til óheppilegra athugasemda hans í garð minnihlutahópa gegnum tíðina.  Ákvörðunin er þannig vatn á myllu þeirra sem mest létu með meint útlendingahatur hans. 
Ritskoðun á hvernig friðsamir þegnar vilja að skemmta sér, og þeim boðskap sem þeir kjósa að hlýða á, er ólíðandi.  Öfgar hafa ekki einkennt Rise hátíðina, þvert á móti ku hún hafa farið ágætlega fram; inngrip var því óþarft, burtséð frá hvað mönnum kann að þykja um einstaka þátttakendur.  
Boris setur niður við þetta – sem er fúlt, því hingað til hefur hann ágætlega afsannað þusið í okkur sem gerðum grín að framboðinu.

Hér að neðan er 5 mínútuna kvikmynd gegn rasisma sem Santiago Alvarez gerði árið 1965, NOW
Kevin Macdonald
sem vann Óskarinn fyrir myndina "One Day in September" (1999) segir þetta bestu heimildamynd sögunnar.
Þess má geta að lagið sem Lena Horne syngur undir meginkafla myndarinnar var bannað í Bandaríkjunum á þeim tíma er myndin var gerð.

{youtube}4uRNA3SgUG8{/youtube}
FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Ljósmyndir í fjölmiðlum

by Baldur McQueen

Held ég hafiéldu aldrei að mér trú, svo ldrei er góð vísa of oft kveðin.

Vísan snýr að framförum í íslenskum fjölmiðlum hvað fréttamyndir varðar.  Oft fyllist ég aðdáun á hversu ágætlega viðföng eru mynduð – hvort sem er staðir, menn eða önnur dýr.  Hér er ekki einungis um betri útbúnað að ræða – menn virðast vera að leggja meiri metnað í þetta.
Þetta er ekki algilt, en mér virðist aukin vandvirkni á þessu sviði vera trend sem vert er að hrósa.

Myndin hér að ofan birtist á vísisvefnum í dag* og er sérlega góð mynd af álitsgjafa fréttarinnar (að mínu mati); kannski Þór sé bara svona fótógenískur? 

*Ég skellti á hana uppáhalds effektinum og kroppaði örlítið til; bara minn einkennilegi smekkur.  Því miður vantar nafn ljósmyndara.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

David Davis, verndari múslima?

by Baldur McQueen

Þingmaður og skuggamálaráðherra Íhaldsflokksins, David Davis, hefur ágætlega hrist upp í breskum stjórnmálum með tilkynningu um afsögn síðasta fimmtudag (sjá fyrri pistil). 
Hann lætur formlega af embætti í dag á miðvikudag – en samkvæmt öruggum heimildum mun það þó ekki gerast fyrr en eftir PMQ (fyrirspurnir til forsætisráðherra). 
Fjótlega má svo búast við opnun heimasíðu tileinkaðri baráttu Davis.

Davis nýtur gífurlegs stuðnings, þó óljóst sé hvort hann nái að snúa almenningsálitinu kyrfilega sér í hag; samkvæmt nýlegri könnun styðja um 65% Breta frumvarp Brown – og teljast því væntanlega andvígir afstöðu Davis.  Þessa dagana hefur karlinn þó á sér yfirbragð alþýðuhetju sem snúið hefur bakinu við snobbi og hroka breskra stjórnmála; varpað framanum fyrir æðri hugsjónir.

Á laugardagskvöld gerðist það svo að þingmaður Verkamannaflokks, Bob Marshall-Andrews, lýsti opinberlega yfir stuðningi við David Davis.  Marshall-Andrews manar Gordon Brown til að reka sig úr flokknum og hvetur aðra flokksmeðlimi til að taka þátt í andófinu.
Líkt og sjá má á skoðanakönnunum sem sýna umtalsvert fall Íhaldsflokks (niður um 7%) í kjölfar klofningsins, er Cameron í hvínandi vanda og Brown er nú settur í þá stöðu að ákveða hvort hann vilji reka uppreisnarmanninn úr flokknum – og gera þannig að píslarvætti – eða láta hann afskiptalausann og taka sénsinn á að hann nái að vinna "skemmdarverk" innan flokksins.
Ásakanir um kaup á atkvæðum flokks sambandssinna (DUP) munu einnig reynast Brown erfiðar, enda öfgahópur þar á ferð, með einkar ógeðfelldar áherslur og hugmyndir; flestar þeirra unnar úr ofbeldisfullum trúarritum kristinna manna.

Talandi um trú, er fróðlegt að skoða þetta mál út frá sjónarhóli múslima, en þeir eru sá þjóðfélagshópur sem hvað mest mun verða fyrir barðinu á væntanlegri löggjöf.  Víða á spjallþráðum þeirra er málið til umræðu og ljóslega mikil hrifning á gjörningi Davis.  
Sumir múslimar telja þó frumvarpið vera ávöxt aðgerðarleysis innan eigin raða; þeir hafi brugðist í baráttunni gegn öfgaöflum innan islam.  42 daga lögin sé því í raun réttlætanleg og jafnvel heppileg.

Það má fullyrða að ef vaxandi reiði verður vart í samfélagi múslima gæti það unnið harkalega gegn forvörnum gegn hryðjuverkum og gæti jafnvel verið gagnleg öfgaöflum, líkt og John Mayor benti á fyrir samþykkt frumvarpsins í neðri deild.  
Ef múslimar draga úr samstarfi við lögreglu og hætta að gefa upplýsingar um hugsanlega öfgamenn mun það auka líkurnar á hryðjuverkum í bresku samfélagi.

Hvað sem öðru líður er hér um mál að ræða sem á sér fá fordæmi í breskri stjórnmálasögu.  
Talað er um að David Davis hafi hitt á heppilega taug í kjósendum og vakið upp niðurbælda reiði tjallans í garð samfélags sem byggist, að sumra mati, of mikið á eftirliti og vantrausti.
Afsögn Davis, sem turnarnir tveir* töluðu fyrst um sem brandara, flipp og geðveiki, gæti orðið að stórmáli sem veldur Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum óbætanlegum skaða.

*"Turnarnir" á e.t.v. ekki við þar sem fylgi Verkamannaflokks er í frjálsu falli.  Samanber mynd.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Kunna ísbirnir að lesa?

by Baldur McQueen

Örfá dæmi um fyrirsagnir síðustu mánaða:

Iceland threatened by a big chill
(Money Week, 28.03.08)

Cold climate of recession takes icy grip on life in Iceland

(Times Online, 03.04.08)

Iceland cools, raising worry of wider chill
(Herald Tribune, 15.04.08)

Iceland first to feel the blast of global cooling
(The Guardian, 17.04.08)

Iceland feels the chill
(The Scotsman, 20.04.08)

Iceland’s Deep Freeze

(The New Yorker, 21.04.08)

Spurning um að kenna þeim djúplestur?  Fyrirsagnir geta verið misvísandi.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest