baldurmcqueen.com

Month: November, 2009

Arion, Poliakoff og Jóhann Hauksson

by Baldur McQueen

Ég óttast nýtt heiti Kaupþing muni misskiljast æði oft á heldur óheppilegan hátt.  Ef stefnt er á útrás, sem kann reyndar vera ólíklegt, gæti framburðurinn skilið milli feigs og ófeigs.

Því Arion getur hljómað glettilega líkt Aryan.

Sem væri kannski í lagi sem heiti yfir íbúa austurhluta Persíu, en öllu verra í þeim skilningi sem Adolf Hitler (mis)notaði það.


[Aryan was] used in Nazi ideology to mean “member of a Caucasian Gentile race of Nordic type”
(Etymology “Aryan”, sótt 22.11 2009)

—-

Talandi um nasista. Handsritshöfundurinn Stephen Poliakoff fjallaði um væntanlega mynd sína, Glorious 39 í þættinum Start the Week síðasta mánudag.  Í fróðlegu viðtali fjallar Poliakoff um öfl í Bretlandi, sem vildu semja við Hitler í stað þess að berjast við hann.  Þar telur hann útbreidda andúð á gyðingum hafa valdið því menn voru til í að horfa framhjá grunsamlegum aðgerðum Þjóðverja, sem við vitum nú voru handan alls siðferðis.

Enn eitt sögukornið sem Bretar vilja helst geyma í skápnum, en Poliakoff hefur verið duglegur að draga fram í dagsljósið.

Svo mjög reyndar, að hann yrði líkast til titlaður föðurlandssvikari á Íslandi, eins undarlegt og það er.

—-

Jóhann Hauksson, blaðamaður á DV, er einn af of fáum sem skoða hrunið gagnrýnum augum, án þess að falla í þá gryfju að upphefja sjálfkrafa málstað Íslendinga.
Vissulega er hann oft kjarnyrtur, en sjaldnast af ástæðulausu.

En klíku- og flokksbræðurnir í Landsbankanum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu vissu sem var að ef þeir stöðvuðu söfnun sparifjár meðal saklausra Breta eða Hollendinga færi Landsbankinn á hausinn. Það breytir hins vegar engu um lagabókstafinn. FME gat hæglega stöðvað opnun Icesave í Hollandi. Þess í stað margfaldaði FME og Seðlabankinn tjónið.
Ég vona að menn gleymi því aldrei að Landsbankinn opnaði formlega Icesave starfsemi sína í Hollandi svo seint sem 29. maí 2008
(Jóhann Hauksson, 22.11 2009)

Ég held einmitt margir séu búnir að gleyma því og ætli sér alls ekki að muna hvernig farið var með hollenska innistæðueigendur, því það hentar illa “málstaðnum”.

—-

Ég var óvenju latur að blogga í síðustu viku, en hyggst gera betur næstu daga.

Í huganum er ég farinn að skipuleggja bloggflótta frá íslenskri pólitík, yfir í þá bresku, auk vangaveltna um hitt og þetta sem ég heyri, sé og upplifi.

Dyggir lesendur vita þetta hefur blundað í mér lengi; ég stefni á að gera Ísland að aukaefni eigi síðar en næstu áramót.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Þrátt fyrir kristni – The Sun – Gísli Marteinn

by Baldur McQueen

Sigurður Þór ritar um gömlu gildin (via).

Þau gildi sem nú gegnsýra þjóðlífið, þrátt fyrir tímabundna kreppu, eru þau jafnræðislegustu, sanngjörnustu, mannúðlegustu og langbestu sem nokkurn tíma hafa ríkt í landinu.

Þau eru ekki kristin gildi. Þau eru gildi mannréttinda og jafnaðar, mildi og réttsýni, sem sprottið hafa upp allra síðustu aldirnar.
(Sótt af orvitinn.com 16.11 2009)
Þetta er rétt hjá Sigurði, að mínu mati.

Leyfi mér reyndar að fullyrða eitthvað af umræddum gildum hafi náð fótfestu þrátt fyrir kristni, ekki vegna hennar.

—-

Mistök sorpritsins Sun, hvar þeir fara rangt með ættarnafn móður bresks hermanns sem féll nýverið í Afghanistan, gætu vart verið vandræðalegri.

Hafandi hamast á Brown í síðustu viku, fyrir að misrita sama ættarnafns (og gengið of langt að margra mati), hefði maður haldið blaðamenn Sun myndu gæta þess sérlega að rita nafnið rétt, alltaf – allstaðar.

—-

Eitthvað er hneykslast á að Gísli Marteinn hafi fengið milljón krónur frá Baugi á árunum 2005 og 2006.  Sú gagnrýni er eðlileg og afsökun Gísla fráleit.

Ég velti þó fyrir mér hver viðbrögð bloggheima hefðu orðið ef Gísli hefði skilað styrknum á sínum tíma – og sá gjörningur ratað í fjölmiðla.
Eitthvað segir mér ónefndir fjölmiðlar hefðu kynnt slíkt sem enn eina sönnun þess að persónuleg óvild klíku innan Sjálfstæðisflokks væri drifkrafturinn í Baugsmálinu.

Hvernig ætli bloggheimar hefðu tekið á því?

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Skil ekki þjóðfundinn

by Baldur McQueen

Síðla árs 2007 setti þáverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, á fót nefnd um ímynd Íslands.  Nefndin vann hörðum höndum í nokkra mánuði og skilaði svo þeirri niðurstöðu að kjarninn í ímynd Íslands skyldi vera “kraftur, frelsi og friður“.

Nefndin leggur því til að kjarninn í ímynd Íslands sé kraftur, frelsi og friður og að náttúrulegur kraftur sé sérkenni Íslands enda telja Íslendingar sig almennt vera duglega, bjartsýna og áræðna og að náttúrulegur kraftur og frumkvæði einkenni atvinnulíf og menningu landsins.
(Forsætisráðuneyti, 07.04 2008)

Sex mánuðum síðar lak krafturinn úr íslensku samfélagi; frelsið reyndist vera helsi og friðurinn gufaði upp á einum degi, eða svo.  Slagorðið “helvítis fokking fokk” varð að kjarnanum í ímynd Íslands, innanlands og utan.

Hvað um það.

Vefmiðlar hafa fjallað örlítið um þjóðfund gærdagsins, en að mínu mati hefur áherslan á slagorðasköpun og stemmingu verið of mikil. 

Eftirfarandi kafli, um ætlaðar afurðir fundarins, er tekið af vefsíðu framtaksins. Undirstrikanir eru mínar.

Afurð fundarins verður framtíðarsýn byggð á skýrum sameiginlegum grunngildum. Að auki eru skilgreindar áherslur, markmið og verkefni sem nauðsynleg eru til þess að tryggja skilvirkan farveg fyrir þær breytingar og aðgerðir sem ráðast þarf í. Fundurinn markar upphaf þess að móta nýtt líkan sem bregst við áðurnefndum kaflaskilum í þróun samfélagsins. Í kjölfar hans verður ráðist í markvissar aðgerðir sem byggjast á niðurstöðum hans. Fundurinn mun einnig kalla fram áframhaldandi umræðu sem miðar að því að þróa niðurstöðurnar áfram til heilla fyrir land og þjóð.
(Þjóðfundur – um þjóðfundinn)

Þau atriði sem ég undirstrika finn ég hvorki í fréttum né umræðu eftir fundinn.
Þetta eru þeir þættir sem ég hef mestan áhuga á, með fullri virðingu fyrir slagorðum og stemmingu.

Fjölmiðlar þurfa kynna þetta betur.  Fá forsvarsmenn til að útskýra hvernig niðurstöðurnar verða notaðar í markvissar aðgerðir, hver markmiðin séu og hvaða breytingar, helstar, þarf að ráðast í.

Í dag skil ég ekki hvað þjóðfundur gerir betur en nefnd á vegum forsætisráðherra (utan stemmingar, sem vonandi mun skila sér út í þjóðfélagið).

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Þjóðfundur og sektir

by Baldur McQueen

a-real-patriot

Fundargestir sektaðir

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Sérdeilis sek Samfylking

by Baldur McQueen

Ein er sú eftirlitsstofnun sem litla gagnrýni hefur fengið í kjölfar hrunsins.

Svokölluð stjórnarandstaða á árunum fyrir áfallið.

Óumdeilt er að samnefnarinn í hruninu er Sjálfstæðisflokkurinn.  Hann ber mesta ábyrgð, hvað svo sem mönnum dettur í hug að setja í íslenskar sögubækur.

Framsóknarflokkurinn ber þá mikla ábyrgð eftir langa þátttöku í ríkisstjórn með íhaldinu og ævintýralegt klúður í einkavæðingu bankakerfisins.  Svo ekki sé dýpra kafað.

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur unnu svo saman við “björgunaraðgerðir” á lokasprettinum, en eyðilögðu flest sem snert var á.  Gerðu ástandið snöggtum verra.

Þessir flokkar, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Samfylking eru gerendurnir – og snarsekir sem slíkir.

En hvernig var eftirlitshlutverki stjórnarandstöðu háttað?

Nú kann það að vera ósanngjörn greining hjá mér, en í fljótu bragði virðist lítið hafa verið hugað að verkaskiptingu hjá andstöðunni.  Lítið skipulagt hver skyldi fylgjast með hvaða ráðuneyti og hvernig tryggja skyldi víðtækt eftirlit með gjörðum hinna háu herra, stofnanna og einkageirans.

Í fljótu bragði virðast stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir hafa skipt sér á allt of fáa málaflokka og beitt þá öllum sínum liðsstyrk, á kostnað mikilvægra þátta.

Vekja má athygli á að Icesave reikningarnir voru opnaðir 10. október 2006, á stjórnarandstöðuvakt Samfylkingar.
Varla er óeðlileg að spyrja hví helsti stuðningsflokkur ESB á Íslandi hafði ekki rænu á að kynna sér rækilega þau EES ákvæði sem snertu þann stórviðburð í íslenskri bankasögu og útrás?

Eða hvað?

Ég held það sé eðlileg spurning, sem Ingibjörg Sólrún mætti svara fyrir, í stað þess að básúna eftiráskýringar, afsakanir og ásakanir í garð þeirra sem hreinsa nú til eftir hennar værukærð.

Vissulega skal viðurkennt að almenningur ber einnig ábyrgð.  Mönnum hættir til að hlusta á þá sem valdið hafa en líta framhjá öðrum.

Þannig er stjórnarandstaðan oft og tíðum afskrifuð sem apparat sem engu skiptir.  Biðstofa eftir völdum og hjal þeirra í engu merkilegra en á öðrum biðstofum. 
Núverandi stjórnarandstaða gerir reyndar lítið í að hrekja þann skilning, með örfáum undantekningum, en þannig á þetta ekki að vera. 

Þannig má þetta ekki vera.

Stjórnarandstaðan er mikilvægur eftirlitsaðili og starf hennar í engu ómerkara en þeirra sem með völdin fara.  Því gleyma stjórnarflokkar, andstaðan – og kjósendur – of oft.

Alþingi á að vinna sem heild.

Alþingi er niðustöðuverksmiðja og Íslendingar neytendur afurðanna sem þaðan koma.

Gera þarf kröfu um gæði.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Lokað á vefsíður – framhald

by Baldur McQueen

Í framhaldi af bloggi sem fjallaði um lokun á vef mbl.is og blog.is, var ég beðin um aðstoð við að stilla Blocksite viðbótina af.
Til þess þurfti ég að komast í Windows vél, en sá þá að viðbótin virkar ekki fyrir nýjustu útgáfu Firefox.  Væntanlega verður því snarað í lag á næstu vikum – en ég fann þó aðra viðbót sem gerir það sama, og meira til*.

Með LeechBlock má skilgreina vefi sem maður vill loka á – og setja ákveðna tíma á ákveðna vefi. 
Þannig get ég lokað á mbl.is allan daginn, en Youtube á kvöldin (þegar ég ætti að vera blogga í stað þess að glápa á forheimskandi myndbönd).

Snjöll viðbót sem margir geta eflaust nýtt sér, hvort sem þeir vilja loka Morgunblaðinu eður ei.

Eftirfarandi eru útskýringar á hvernig á að setja þetta upp í Firefox og stilla af.  Mjög einfalt og þægilegt.
Í lokin eru svo textaleiðbeiningar varðandi Blocksite, fyrir þá sem eru með eldri útgáfu af Firefox.

a) Þú ferð á vefsíðu LeechBlock og smellir á “Add to Firefox” (græni hnappurinn).

lb_install_addon

b)  Þú færð nú upp glugga sem telur niður í örfáar sekúndur og býður þér svo að “Install Now”.  Þú smellir á þann hnapp og býður svo eftir glugganum sem birtist hér að neðan. 
Þar smellir þú á hnappinn “Restart Firefox”.

lb_restart_firefox

c)  Firefox endurræsir sig nú og þá er viðbótin uppsett.  Nú ferð þú einfaldlega í Tools, LeechBlock og Options, til að stilla viðbótina eins og þú vilt hafa hana.

lb_options

d)  Eftirfarandi stillingar setti ég inn til að loka á Morgunblaðið (sjá skýringar neðan við mynd): 

lb_settings

1) Hér setur þú inn lénin sem þú vilt loka á, stjarnan (*) merkir hvaða möguleiki sem er (t.d. bull.blog.is, rugl.blog.is, sull.blog.is, o.s.frv.).

2)  Í lið tvö get ég set inn tíma sem loka á þessum vefsíðum, eða smellt á hnappinn “All Day” til að loka algerlega á vefinn, allan sólahringinn.

3)  Í lið þrjú get ég valið daga sem ég vil loka á vefi, eða smellt á “Every Day” til að loka algerlega á vefinn, alla daga.

4)  Í lið fjögur set ég inn vefsíðu sem ég færist sjálfkrafa inn á, falli ég í “freistni” og reyni að komast inn á mbl.is.  Í þessu tilfelli kemst ég ekki inn – og færist sjálfkrafa á vefsíðu Eyjunnar.

5)  Í lið fimm set ég svo inn nafnið á þessu safni vefsíðna, líkt og sjá má er hægt að skilgreina 6 sett af vefsíðum, hvert á sinn sérstaka hátt.
Ef ég ætlaði t.d. að loka Youtube á kvöldin, eða loka á mig hálftíma af hverri klukkustund, myndi ég smella á “Block Set 2″ og skilgreina Youtube þar.

——

Leiðbeiningar fyrir Blocksite.

Eftir að þú setur viðbótina upp, þarftu að komast í stillingarnar.  Í Firefox fyrir Linux er þetta í Tools –> Add-ons.  Þar vel ég Blocksite viðbótina og smelli á Preferences.

Þar undir má svo setja inn vefi líkt og í skýringarmynd d) fyrir LeechBlock, með * merkinu fyrir “alla möguleika”.

Þá á þetta að virka :-)

* Bendi einnig á að Jón Frímann talar um OpenDNS í athugasemd við síðasta blogg.  Ég þekki það ekki, en sýnist fyllilega þess virði að bæta úr þeirri vanþekkingu.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Bloggheimar: lokað á Morgunblaðið

by Baldur McQueen

Ég óska aðstandendum Bloggheima til hamingju með opnunina, en þar sýnist mér sé langþráður möguleiki fyrir flóttamenn af bloggi Morgunblaðsins.

Af því tilefni náði ég mér í Firefox viðbótina Blocksite og hef lokað algjörlega á vefsvæði MBL og blogg því tengdu.  Viðbótin gerir tengla inn á blog.is og mbl.is óvirka og hleður ekki inn viðkomandi vefsíðum.

Nú kann einhverjum að þykja þetta stælótt ráðstöfun og það er hún líklega að sumu leyti.  En, nú þegar aðrir möguleikar bjóðast öflugum bloggurum, get ég ekki réttlætt heimsóknir mínar á vef sem einn af höfundum hrunsins tengist svo sterklega.

Þetta er prinsipmál.

Ef Alexander Boris de Pfeffel Johnson, núverandi borgarstjóri London, tekur upp á því að gerast forsætisráðherra lengur en nokkur hefur verið áður, gefur vildarvinum breska banka með hörmulegum afleiðingum, snarar sér æðsta stól Englandsbanka (og gerir gjaldþrota), og sest svo í ritstjórastól Guardian, potandi fingrum í umfjöllun um eigin árangur, lofa ég að loka einnig á það blað.

Af prinsipástæðum.

Reyndar þyrfti ekki svo sérkennilega forsögu.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í ritstjórastól myndi færa mig að sömu niðurstöðu; hennar þáttur í því sem heltekur fjölmiðla dag eftir dag, hruni Íslands, myndi duga mér fullkomlega til að loka á Morgunblaðið. 

Umfjöllun um hrunið á að fara fram án ritstjórnar þeirra sem léku helstu hlutverk, það segir sig sjálft. 

Auðvitað er Davíð, Ingibjörgu og öðrum frjálst að rita greinar og mæta í viðtöl til að bera af sér sakir, biðjast afsökunnar – og allt þar á milli.  Sjálfsagt er að hlusta á slíkt, enda líklegt að almannarómur hafi heldur bætt í sök manna en dregið úr. 
En að slíkar persónur setjist í ritstjórastól á sjálfu Morgunblaðinu er fullkomlega glórulaust, á þessum tíma.

Þegar allt kemur til alls vita jafnvel hörðustu aðdáendur Davíðs að “upphefð” hans er fráleit.  Þeir geta leyft sér stuðninginn, því þeir vita ferilskrá Davíðs er háðungarmet á heimsvísu sem aldrei verður slegið. 
Þeir munu aldrei þurfa gagnrýna viðlíka steypu, því þetta er einsdæmi – og verður einsdæmi.

Maður klórar sér bara í hausnum og veltir fyrir sér hvað það er í íslensku samfélagi sem veldur því stórum hópum manna þykir sjálfsagt að þetta sé með þessum hætti.

Hingað til hef ég að mestu haldið mig frá fréttasíðu Morgunblaðsins, því með hverri heimsókn er glóruleysið samþykkt.  Ég hef þó stolist inn á bloggsíður, því þar eru öflugir bloggarar inn á milli.

Nú þegar nýr vettvangur hefur litið dagsins ljós sendi ég þau skilaboð til auglýsenda að ekkert sem birtist á mbl.is eða blog.is mun berast til minna augna meðan einn af höfundum hrunsins situr í stól ritstjóra (ekki það auglýsendur hræðist slíkt í mínu tilfelli, því ég er ólíklegur viðskiptavinur).

Vitandi um eigin veikleika hef ég hlaðið niður viðbót sem hjálpar mér í þessu prinsipmáli.  Ég mæli með Blocksite.

Hana má líka nota til að loka á þennan vef.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Baldur hættur að blogga

by Baldur McQueen

Ég er töluvert ósáttur við að nafni minn Kristjánsson sé hættur að blogga og vona fríið vari ekki lengi.

Baldur Kristjánsson er góður bloggari, einlægur og fróður.  Það er ekki síst í umræðum um kynþáttafordóma og innflytjendur sem Baldurs verður saknað, enda hefur hann þar mikla og góða reynslu gegnum störf á vegum ECRI; á blogginu ræðir Baldur gjarnan skýrslur og ályktanir frá nefndinni og kynnir landsmönnum.
Þær upplýsingar rata ekki endilega beint í hefðbundna fjölmiðla, en eiga klárlega erindi í umfjöllun og ákvarðanatöku. 

Ég hef ekki getað sett inn athugasemdir hjá Baldri, því þær eru lokaðar öðrum en þeim sem skrá sig hjá Morgunblaðinu (freistandi, en nei takk).

Ég þakka því, hér, fyrir fróðlegt efni hingað til, og hvet Baldur til að halda áfram skrifum á eigin vefsíðu (baldur.is).

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Þegar ég fór á strippbúllu

by Baldur McQueen

Ég gæti skammast út í KSÍ manninn sem fór á nektardansstað.

En yrði fyrst að viðurkenna eigin sök.

Ég fór sem sagt einu sinni á strippbúllu.  Eitt skipti dugði fyrir lífstíð.

Þetta var fyrir um 20 árum, þegar ég ferðaðist með lúðrasveit og blés í básúnu.

Búllan var í Sviss.

Nánar tiltekið í Zürich.

Ég eyddi engu og var inni í fimm mínútur, eða allt þar til fagra stúlkan á sviðinu fór úr nærfötunum og reyndist virkilega “karlmannlega vaxin”.

Þá tók ég á rás og allt mitt föruneyti, enda of stór upplifun (pardon the pun) fyrir saklausa strákpjakka frá Íslandi.

Ljótt að básúna um syndir mínar á opinberum vettvangi, en ég þakkaði stúlkunni þetta lengi – og notaði sem afsökun til að afþakka ferðir á strippstaði.

Svo þroskaðist ég smátt og smátt og uppgötvaði ótal fleiri ástæður til að sleppa slíkum heimsóknum.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Hvítflibbar: kókaín og karlremba

by Baldur McQueen

Laurie Taylor skyggnist inn í heim hvítflibbaglæpa í áhugaverðum þáttum á BBC Radio 4.  Taylor er fjarri því í uppáhaldi hjá mér, en hittir stundum á skemmtileg efni.

Fyrsti þáttur um hvítflibbaglæpi, sem finna má hér, er ágætur.  Í eftirfarandi klippu er gripið örstutt niður í áhrifavaldana kókaín og karlrembu.

{audio}hvitflibbar_kokain_og_karlremba.mp3{/audio}
(BBC Radio 4, Laurie Taylor. White Collar Crime 1: The Culture of the Crime 04/11 2009)

FacebookTwitterGoogle+Pinterest