baldurmcqueen.com

Month: August, 2010

Dekstur við þjóð

by Baldur McQueen

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, segir á bloggsíðu sinni að ef ESB umsóknin yrði dregin tilbaka “leiddi [það] væntanlega beint eða óbeint til nýrra alþingiskosninga – þar sem ESB-málið yrði í kastljósi” (Mörður Árnason, 28.08 2010).

Ég skil þetta sem svo að stjórnarsamstarfinu yrði slitið og hugsanlega sótt um aðild í kjölfar kosninga – ef svo ólíklega vildi til að meirihluti næðist fyrir slíku.

Það held ég gangi varla upp.

Taki alþingi upp á þeim undarlegheitum að draga umsóknina til baka, tekur ESB varla vel í frekari umsóknir Íslendinga á næstu árum; eða hvað?

Sem skattgreiðandi innan ESB sýnist mér margt mikilvægara en dekstur við þjóð sem virðist sammála um það eitt að útlendingar séu hættulegir (afsakið alhæfinguna, sem vissulega er ósanngjörn).

Vægar orðað; brenni alþingi brúna að baki þjóðinni, er a.m.k. ekki sjálfgefið að Evrópa eyði tíma og fjármunum í að endurbyggja hana á næstunni.

Næg er óráðssían þegar í því ágæta sambandi.

Ef meirihluti er fyrir því að draga umsóknina til baka, hlýtur maður að vona sjaldséð skynsemi grípi um sig í þingsal og tillögunni verði breytt á þann veg að umsókn fari í salt. Fordæmi finnast fyrir því, muni ég rétt, og það liti betur út.

Frumvarpið – eins og það er í dag – virðist hreinlega samið til þess að staðfesta fyrir heimsbyggðinni að alþingi Íslendinga sé algerlega ómarktækt og því skyldi aldrei treysta.

Sem er svo sem góð vísa.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Íslenskt klúður: Innleiðing eða framkvæmd?

by Baldur McQueen

Eyjan slær því upp í fyrirsögn í gærkvöldi að enn sé óljóst hvað brást við innleiðingu tilskipunar 94/19/EC, þrátt fyrir svar Michel Barnier við erindi Steingríms J. Sigfússonar. Steingrímur falaðist, sem kunnugt er, eftir skýringum á “defective implementation“.

Yfir þessu hefur fólk rifist síðustu vikur og talið Barnier á villigötum þegar hann gagnrýnir innleiðinguna. Menn hafa þá vísað í að ESB hafi brugðist, því sambandið hafi ekki gert athugasemdir við innleiðinguna fyrr.

Þessu má kannski svara á einfaldan hátt.

Barnier talar hvergi um innleiðingu, heldur framkvæmd (implementation).

implement – Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi
im-ple-ment. … framkvæma, koma í framkvæmd: implement an order. Do not undertake a project unless you can implement it.
(Snara.is – implement)

S: (n) execution, implementation, carrying out (the act of accomplishing some aim or executing some order) “the agency was created for the implementation of the policy”
S: (n) implementation, effectuation (the act of implementing (providing a practical means for accomplishing something); carrying into effect)
(Wordnet)

to fulfill; perform; carry out: Once in office, he failed to implement his campaign promises.
(dictionary.com)

Það skyldi þó aldrei vera að stjórnsýslan, ásamt ótilgreindum fjölda álitsgjafa, hafi verið á villigötum í málinu frá fyrsta degi? Um það fullyrði ég auðvitað ekkert, enda væri ég þá að leggja Barnier orð í mun.

En mér sýnist það þá styðja við kenningu mína, að Barnier vísar í álit EFTA (ESA) í bréfi sínu, sem svar við fyrirspurn Steingríms.
Ég geri ráð fyrir að allir Íslendingar hafi lesið það álit – og viti því gjörla að þar er bent á fjölmarga galla við framkvæmdina og lagatækni Íslendinga hafnað.

Ennfremur má vísa í lokaorð Barnier í bréfi til Steingríms. Prófið að þýða “implementation” sem innleiðing og svo sem framkvæmd. Það leikur varla vafi á þessu, eða hvað?

As to the implementation of Directive 94/19/EC in the Member States of the European Union, we have no knowledge of any comparable situation in which depositors have not been compensated.
(Svar Barnier, dagsett 17.08 2010)

Ég legg til næsta skref Steingríms verði að rita Barnier (vandræðalegt) bréf og inna hann eftir því hvort hann eigi við innleiðingu (t.d. adopt eða enact) eða framkvæmd (t.d. execute) þegar hann notar orðið “implementation” í textanum sem svo mjög er rifist yfir.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Upprisa Indefence

by Baldur McQueen

Ólafur Elíasson, Indefence-liði, ritar athugasemd við síðasta blogg mitt.

Það tel ég mikilvægan áfanga, því Ólafur og aðrir Indefence-liðar flúðu mig sem fætur toguðu fyrir nokkrum mánuðum síðan og hafa lítið látið á sér kræla á mínum vefsíðum síðan.

Ástæðan var einföld.

Ég færði sönnur á að í afmælisyfirlýsingu þeirra (2009) var að finna töluvert grófa sögufölsun. Þessu neituðu þeir að gangast við – og hafa enn ekki gert.

Það var einmitt á þessum tíma sem ég áttaði mig á að fjölmiðlar á Íslandi eru jafn dauðir og þeir voru fyrir hrun. Hér er um samtök að ræða sem veitt hafa alþingi ráðgjöf og sátu síðar fund með forseta íslenska lýðveldisins áður en hann ákvað að vísa Icesave lögunum til þjóðarinnar.
Í flestum ríkjum heims þætti fréttnæmt að samtök í svo nánu samstarfi við ríkisstjórn og (síðar) forseta, grípi til lyga í opinberri afmælisyfirlýsingu.

En íslenskir fjölmiðlar létu þetta algerlega fram hjá sér fara.

Fyrst Ólafur er mættur, gríp ég að sjálfsögðu tækifærið og óska enn og aftur skýringa á rangfærslum Indefence.

Forsagan
Í október 2009 sendu Indefence frá sér afmælisyfirlýsingu hvar bresk stjórnvöld voru m.a. gagnrýnd fyrir að nota hryðjuverkalög “í stað þess að nota önnur úrræði sem bresk lög bjóða upp á” (Eyjan 08.10 2009).

Nú, eftir töluvert hark sökum þess Indefence tókst að fara rangt með lagaheiti, komst ég að því að með “öðrum úrræðum” áttu samtökin við Banking (Special Provisions) Act 2008 og Freezing Injunction.

Fyrri samskipti má lesa um í Svar til Indefence-liða og Enn af klúðri Indefence.

Banking (Special Provisions) Act 2008
Í þessum lögum er að finna heimild til yfirtöku breskra banka. Ekki íslenskra banka, líkt og Icesave (útibú), heldur breskra banka (t.d. Kaupthing Edge, sem var dótturfyrirtæki).

Þetta kemur skýrt fram í samantekt frumvarps um lögin:

Summary of the Bill
The Bill enables UK-incorporated banks and building societies to be taken into public ownership.
(Samantekt – Banking (Special Provisions) Bill 2007-8)

Getur vart verið skýrara.

Nú, ef við horfum svo á lögin sjálf og skilgreiningu á umfangi þeirra, má sjá eftirfarandi:

In this Act “authorised UK deposit-taker” means a UK undertaking that under Part 4 of FSMA 2000 has permission to accept deposits.”
(Banking (Special Provisions) Act 2008)

Sem sagt, lögin ná yfir breskar innlánsstofnanir og vísað í kafla 4 í FSMA 2000 til áréttingar.

Og hverjir skyldu nú ekki flokkast sem “breskar innlánsstofnanir”, samkvæmt FSMA 2000?

Jú, sérstaklega er tekið fram að lögin ná ekki yfir útibú fyrirtækja á EES svæðinu.

An EEA firm may not apply for permission under this section to carry on a regulated activity which it is, or would be, entitled to carry on in exercise of an EEA right, whether through a United Kingdom branch or by providing services in the United Kingdom.
(FSMA Act 2000)

Auðvitað er þetta átakanlega skýrt, en einhverra hluta vegna hættu Indenfence alveg að svara mér eftir að ég benti á þetta. Létu eins og ég væri ekki til lengur.

Þar til í gær, að Ólafur Elíasson ritaði athugasemd á bloggið mitt.

Sem ég fagna.

Því nú þykist ég viss um að svör fari að berast við spurningunni sem ég varpaði ítrekað fram fyrir nokkrum mánuðum síðan, en fékk aldrei svör við.

Ólafur.

Hvernig gátu Bretar beitt Banking (Special Provisions) Act 2008 varðandi Icesave reikninga Landsbanka Íslands, þegar sérstaklega er tekið fram í lögunum að þau nái ekki yfir útibú fyrirtækja á EES svæðinu?

Þegar þú hefur svarað því skilmerkilega, skulum við taka fyrir Freezing Injunction á sama hátt.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Össur og öryggið

by Baldur McQueen

Öryggi er líka efnahagslegt hugtak, segir Össur á fundi með fjármálaráðherrum.

Skarplega athugað!

Kafli tvö (Freezing Orders) í lögum sem Bretar beittu gegn Landsbanka Íslands (Anti-Terrorism, Crime and Security Act 2001) snýr einmitt að efnahagslegu öryggi.

Breta.

Kaflinn tiltekur ekki hryðjuverk sérstaklega; á þau er reyndar ekki minnst.

The Treasury may make a freezing order if the following two conditions are satisfied.

The first condition is that the Treasury reasonably believe that —

(a)action to the detriment of the United Kingdom’s economy (or part of it) has been or is likely to be taken by a person or persons, or

(b)action constituting a threat to the life or property of one or more nationals of the United Kingdom or residents of the United Kingdom has been or is likely to be taken by a person or persons.
(Kafli 2, Power to make order – fyrsta skilyrði)

Lögin hefðu vissulega mátt vera deigari, líkt og bresk þingnefnd (TSC) benti á síðar. En bresk stjórnvöld höfðu einungis þessi lög og gerðu sitt besta til að verja almenning gegn ágangi þjófa – líkt og þeim bar að gera.

Kallið íslensku afglapana ráðherra, þingmenn, bankastjóra, formenn og forstjóra, mín vegna – en hugtökin þjófar og vitorðsmenn eru nær sannleikanum.

Vindbelgurinn Össur er þar á meðal.

Þess utan, sat Össur í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem ákvað að kæra ekki aðgerðirnar á sínum tíma.

Sem var reyndar skynsamleg ákvörðun.

Því þjófar fá sjaldnast dæmdar bætur vegna kostnaðar við ránsleiðangur.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

LibCon óvinsælir

by Baldur McQueen

Breska stjórnin mælist nú óvinsæl í fyrsta skipti. UK Polling Report segir 39% styðja stjórnina, en 41% vera henni andvíg.

Ágætar fréttir, í sjálfu sér.

Ekki að ég vilji stjórnina burtu, einmitt núna. Það yrði líklega ekki til góðs.

En í þessu felst örlítið aðhald.

—-

Stéttarfélagið mitt, Unison, boðar ríkisstjórnina í réttarsal vegna fyrirhugaðra breytinga á heilbrigðiskerfinu (NHS). Ljómandi.

Hvíti pappír heilbrigðisráðherra hefur enga umræðu fengið, þrátt fyrir sæmilega skýr ákvæði þess efnis að fullt samráð skuli haft um stærri breytingar.

You have the right to be involved, directly or through representatives, in the planning of healthcare services, the development and consideration of proposals for changes in the way those services are provided, and in decisions to be made affecting the operation of those services.
(Þáttur 2a í stjórnarskrá NHS)

Í lögum um NHS (NHS Act 2006 – liður 242) segir síðan:

Each body to which this section applies must make arrangements with a view to securing, as respects health services for which it is responsible, that persons to whom those services are being or may be provided are, directly or through representatives, involved in and consulted on—

(a)the planning of the provision of those services,

(b)the development and consideration of proposals for changes in the way those services are provided, and

(c)decisions to be made by that body affecting the operation of those services.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Að fara eða vera

by Baldur McQueen

Der Spiegel segir frá því að flokksmenn Merkel vilji semja við talibana í Afghanistan. Sem virðist reyndar eina leiðin til að koma á ígildi friðar; eina vafaatriðið er hvort það gerist fljótlega eða verður dregið í einhver ár til viðbótar.

En lífið verður engin sæla fyrir fólkið.

Einn af þeim sem semja þyrfti við, Gulbuddin Hekmatyar, er sagður hafa stundað það á námsárunum að sletta sýru á kvenkyns samnemendur sem neituðu að hylja sig. Hekmatyar er einnig grunaður um aðild að misheppnuðu banatilræði við Karzai, árið 2002, hvar nokkur fjöldi viðstaddra lét lífið.

BBC segir þá frá aftökum í Kunduz héraði, á sunnudag, hvar 23 ára gömul kona og 28 ára karlmaður voru grýtt fyrir framhjáhald. Karlmaðurinn var með lífsmarki eftir ósköpin og byssukúlur notaðar til að ljúka verkinu.
Fyrr í mánuðinum var ófrísk ekkja grýtt af talibönum í Baghdis héraði.

Sögur af slíku ofbeldi gefa varla fyrirheit um sælu í Afghanistan, hverju svo sem talibanar lofa í viðræðum. Túlkun þeirra á trúarritum mun væntanlega hafa vinningin yfir einstök atriði samninga.

Svo málið er sannarlega flókið.

Should I stay or should I go now?
If I go there will be trouble
And if I stay it will be double
(Clash – Should I stay or should I go)

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Leiðinleg leiðtogabarátta

by Baldur McQueen

Leiðtogabarátta Verkamannaflokks hefur staðið í tvo mánuði og enn eru sex vikur eftir. Átökin hafa verið sérlega óáhugaverð.

Íslandsvinurinn Lord Myners segir frambjóðendur verða að brjótast undan furðureglum flokksins varðandi framboðsfundi. Umræðan er geld og ekkert mál fæst rætt í þaula. Á fundunum fær hver frambjóðandi tvær mínútur til að tjá sig um tiltekið mál, sextíu sekúndur til að svara spurningum úr sal og síðan tvær mínútur til að loka málinu.

Dýptin verður ekki mikil undir slíkum reglum; Paula Toynbee hitti naglann á höfuðið þegar hún kallaði þetta “Twitter pólítík”. Ég hef óljósa hugmynd um viðhorf frambjóðenda, en veit lítið um hvaða leiðir þeir vilja fara. Fyrirkomulagið býður upp á frasapólitík af verstu sort.

Myners vill einnig sjá viðurkenningu á að flokknum hættir til að hverfa frá völdum með buxurnar á hælunum, í efnahagslegu tilliti. Stefna fjármála þurfi að vera sannfærandi, eigi flokkurinn að verða stjórntækur í framtíðinni.

I do think the Labour party has to wrestle with the fact that it tends to leave office with large deficits. And I think its licence to govern is weakened – and it would be weakened in the future – if it could not produce credible arguments to show that it is capable of sound economic management through the cycle. We are also going to be able to make a more credible contribution to this debate if we’re clearer about where we would have made cuts and where we would have made taxations.”
(Guardian 15.08 2010)

Ekki veit ég hvort orð Myners muni hafa áhrif. Skipulagið er niðurnjörvað og vandséð því verði breytt að þessu sinni.

En gagnrýnin er réttmæt; þetta er óskaplega gelt og frasakennt.

Sem hentar kannski frambjóðendum ágætlega, því þeir þurfa sjaldnast að hafa fyrir svörunum.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Lára Hanna

by Baldur McQueen

Eftirfarandi blogg ritaði ég skömmu áður en ég fór til Moffat – þegar Lára Hanna tilkynnti hún hyggðist hvíla bloggið til lengri eða skemmri tíma. Ég birti þetta ekki, því ég óttaðist að af stað færi bolti sem Lára Hanna hefði engan áhuga eða tíma til að grípa.
Ég sendi henni því textann í tölvupósti og innti eftir hvort þetta væri eitthvað sem hún gæti hugsað sér. Lára Hanna gaf ekki ákveðið svar, en ég þykist vita hægt væri að þrýsta á hana ef áhugi reynist fyrir eftirfarandi.

——

Lára Hanna fer ágætlega yfir ástæður þess hún treystir sér ekki til að blogga áfram að óbreyttu.

Ég held flestir sem sett hafa margmiðlunarefni á bloggvefi, hljóti að skilja þreytuna.

Ég held flestir sem skrifað hafa langa og greinargóða texta, hljóti að skilja þreytuna.

Ég held flestir sem vilja skrifa á góðri íslensku og prófarkalesa fyrir birtingu, hljóti að skilja þreytuna.

Ég held flestir sem vilja tengja oft og mikið í heimildir og fyrri skrif, hljóti að skilja þreytuna.

En ólíkt mörgum – og líklega flestum – gerir Lára Hanna þetta allt í einu. Blogg hennar eru yfirleitt löng, greinargóð, rituð á fallegri íslensku og yfirfull af margmiðlun og tenglum í ýmis konar hliðarfróðleik og heimildir.

Einmitt þess vegna tel ég Láru Hönnu hugsa of smátt þegar hún óskar eftir stuðningi til að halda áfram að blogga.

Lára Hanna ætti, með stuðningi áhugasamra, að hefjast handa við söfnun fjármagns til að koma á fót veglegu vefsafni og kennslusetri á veraldarvefnum; “Hrunið 2008 og eftirköstin“!

Sækja um styrki til menntamálaráðuneytis, samtaka, fyrirtækja og almennings. Safna miklu strax í upphafi og ráða gott fólk til starfa við hlið sér. Líta á sem verkefni til 3-4 ára, ef vel á að vera.

Lára Hanna þyrfti framúrskarandi tölvufræðing og grafískan hönnuð, sem hannað geta fallegt og notendavænt umhverfi um safn á netinu og rithöfund/kennara sem aðstoða myndi við gerð kennsluefnis um hrunið (á bóka- og vefformi). Hvað um samstarf við Námsgagnastofnun? Er til mikilvægara kennsluefni fyrir komandi kynslóðir en einmitt “Hrunið 2008“?

Ég efast um það.

Komandi kynslóðir þurfa að muna, skilja, vita….og forðast!

Lára Hanna þarf þá verktaka í minni og stærri rannsóknarstörf. Elfur Logadóttir, lögfræðingur, hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf (tidarandinn.is), sem eðlilega hefur hægst á undanfarið. Væri hægt að fá hana í útskýringar á hinum ýmsu tengingum milli fyrirtækja? Jón Jósef, eða hvað hann nú hét? Öldu eða Írisi í erlenda heimildaöflun?

Textasmið til að búa til flottara heiti en hið fyrirséða “Hrunið 2008 og
eftirköstin
“!

Tekið skal fram að Láru Hönnu er ég oftar en ekki ósammála – og þykist vita margt af því sem ég skrifa fari í hennar fínustu taugar. En það skiptir einfaldlega engu máli.

Því ég treysti henni.

Á bloggi hennar má sjá að þar fer sérlega skipulögð, ósérhlífin, áhugasöm og vinnusöm manneskja. Hún heldur þegar utan um einhver Terabæt af efni, sem hún hefur safnað í sjálfboðavinnu.
Á blogginu tekur hún vissulega harða afstöðu, sem ekki myndi hæfa í verkefni líkt og ég sting upp á – en ég efast ekki um hún geti hægt á sér, ef verkefnið krefst þess.

Í mínum huga er þetta einfalt. Eftir 5, 10 eða 20 ár, vildi ég gjarnan geta gengið að fróðleik um hrunið á einum stað. Vefur á borð við timarit.is dugir ekki, með fullri virðingu fyrir því verkefni, sem er framúrskarandi.

Ég vil leita eftir gögnum í umhverfi sem er sérstaklega hannað til að finna það sem maður vill hverju sinni; myndbönd, ljósmyndir, blaðagreinar, útskýringar, skýringarmyndir, kennsluefni og hljóðskrár.

Allt á einum stað. Aðgengilegt fyrir alla. Ókeypis.

Vissulega myndi þetta kosta eitthvað – og líklega fremur mikið. En ég sé ekki slíkt safn væri ómerkara eða ónauðsynlegra en mörg af þeim söfnum sem Íslendingar styðja í dag – með bros á vör.
Ég myndi leggja einhverja þúsundkalla í slíkt verkefni, ekki spurning.

Og fáum myndi ég treysta betur til að gera þetta vel, en einmitt Láru Hönnu.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

Gylfa mál í víðara samhengi

by Baldur McQueen

Ég hef ekki kynnt mér Gylfa-hneykslið í þaula. Eyddi síðustu viku í Moffat (Skotlandi), án teljandi tenginga við umheiminn. En hef lesið eitt og annað í dag, eftir að fjölskyldan sneri heim til Englands.

Hneyksli er þetta eflaust.

En ef hneykslið snýr að því sem Marinó bendir (réttilega) á, er hneykslið bara hálft í dag, sýnist mér. Seinni hlutinn snýr að alþingsmönnum sem sátu í sal við fyrirspurn Ragnheiðar og svar Gylfa.

Ef svarið var svona arfavitlaust, hvers vegna hefur það tekið þingmenn andstöðu ríflega ár að uppgötva klúðrið? Hvers vegna var spurningin ekki ítrekuð í næsta fyrirspurnartíma? Af hverju úthrópaði stjórnarandstaðan ekki meintan feluleik í fjölmiðlum?

Virðing fyrir Gylfa?

Nei, viðstaddir voru auðvitað sömu álkurnar og Gylfi. Reyndar meiri álkur, því þingmennirnir virðast hvorki hafa skilið fyrirspurn né svar – og því síður að hið seinna rímaði ekki við hið fyrra.

Gylfa-mál sýnir enn og aftur að engar kröfur eru gerðar á stjórnarandstöðu alþingis. Sérlega fáir virðast skilja að hlutverk stjórnarandstöðu er svo miklu meira en að búa til hávaða þegar henta þykir. Þingmenn andstöðu, sem sátu umræddan fyrirspurnartíma, eiga skömm skilið – rétt eins og Gylfi.

Vilji fólk bara blóð, er sjálfsagt að fórna Gylfa og láta svo gott heita.

Vilji fólk betra alþingi, úthrópar það einnig þingmenn sem sváfu í umræddum fyrirspurnartíma – stjórnarandstöðu sem uppgötvaði ekki svarið fyrr en fjölmiðlar veittu því hæfilega athygli.

Ríflega ári síðar.

Og fyrst ég varpa þessu fram í bráðum bloggheimum, er rétt að taka fram að gagnrýni mín felur ekki í sér stöðutöku með Gylfa eða Samfylkingunni. Því þannig virðast laushugsandi lesendur skilja flesta texta.

Ég bendi einfaldlega á að stjórnarandstaðan er að koma hörmulega úr þessu máli, en fáir virðast sjá það.

Áður hef ég talað um þetta vandamál varðandi stjórnarandstöðu á Íslandi, t.d. þegar ég benti á ábyrgð Samfylkingar varðandi útrás bankamanna og Icesave málið. Sú ábyrgð er ótvíræð, ekki síst meðan sá flokkur sat í andstöðu.

Meintur ESB flokkur Íslands, hafði ekki döngun í sér til að fylgjast með hvað þáverandi stjórn og bankamenn brugguðu í skjóli EES samningsins. Sérlega lélegt, en merkilega lítið rætt. Ætli ég sé ekki eini maðurinn sem notað hefur hugtakið “stjórnarandstöðuvakt“í bloggheimum?

En sú vakt er sannarlega til. Stjórnarandstaða á að standa vaktina, engu síður (og jafnvel fremur) en ríkisstjórn.

Breyta þarf öllu skipulagi stjórnarandstöðu á Íslandi. Því hún einskorðast við ábyrgðarlaust og óskipulagt gól.

Er nema von ríkisstjórnir klúðri þegar aðhaldið er ónýtt?

FacebookTwitterGoogle+Pinterest

LÍÚ og aðildin

by Baldur McQueen

Það er vissulega frétt að LÍÚ hafni þeirri hugmynd að draga ESB umsókn tilbaka.

En varla stórfrétt.

Því sú stefna Sjálfstæðisflokks er ein sú vitlausasta sem mörkuð hefur verið í íslenskri pólitík. Ekki til á henni skynsamlegur vinkill og ekki hægt að styðja hana.

Þetta sjá menn innan aðildarfélaga LÍÚ, hvort sem samtökin munu tala fyrir eða gegn samningi þegar þar að kemur. Ég giska á hið síðarnefnda.

Samtökin eru jú á móti aðild, líkt og Evrópuvaktin bendir á.

FacebookTwitterGoogle+Pinterest